Hótunarsamfélagið

„Ég vona bara að þér vegni vel og þrátt fyrir það, að þetta komi ekki illa niður á þér,‟ segir framsóknarþingkonan við listamanninn, en lætur ósagt hvers vegna orðalag hans í fjölmiðlum um flokkinn ætti að koma illa niður á honum í framtíðinni.

Falleg búð, það væri synd ef eitthvað myndi koma fyrir hana,‟ segir mafíósinn við búðareigandann í klisjukenndum glæpasögum, en lætur auðvitað alveg ósagt hvað ætti að koma fyrir búðina. Hvers vegna búðin væri líkleg til að lenda í einhverju.

Hótun framsóknarþingkonunnar Þórunnar Egilsdóttur er hótun, hver svo sem nennir að skoða vídjóið sér það á allri hennar líkamstjáningu. Það var líka hótun þegar Vigdís Hauksdóttir sagði að hún væri ósátt við vinnubrögð ríkisútvarpsins og að hún væri „náttúrulega í þessum hagræðingarhópi‟.
Framsókn er valdamesti flokkur Íslands í augnablikinu, hann hefur forsætisráðuneytið, dómsmála og utanríkismálaráðuneytið, og hefur sýnt að hann hikar ekki við að refsa fyrir eða verðlauna ákveðna hegðun. Forsætisráðherra lítur á fjárveitingavaldið sem tæki til að gera pólitíska greiða í kjördæmi sínu, og virðist sannfærður um að hann sé undir stöðugum loftárásum, að samfélagið sé uppfullt af óþjóðhollum óvinum sem verði að uppræta.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson kemst upp á kant við valdafólk á Íslandi. Frægð hans hér á landi byggir aðallega á gjörningum á borð við framboð hans til forseta og formanns Sjálfstæðisflokksins, en athyglisverðasta atvikið á ferli hans var þegar aðrir myndlistarmenn pressuðu á að hann hætti við gjörning. Það var á þeim tíma sem sankti Björgólfur gamli var konungur Íslands, átti að fá VIP herbergi í nýja tónlistarhúsinu, leggja hálfan miðbæjinn undir risavaxnar höfuðstöðvar banka síns og átti alla listamenn Íslands með húð og hári. Afmæli hans voru haldin í Þjóðleikhúsinu þar sem leikarar léku brot úr glæstri ævi hans og allt annað listafólk kepptist við að ná hylli hans.

Á þessum tímapunkti hafði Snorri ætlað sér að klippa á borða og veita orður á opnun Klink og Bank, 160 manna vinnuaðstöðu í eigu Landsbankans. Bankinn útvegaði listamönnunum húsnæðið ókeypis og að sjálfsögðu átti sankti Björgólfur að vera heiðursgestur, en slíkur heiðursgestur ætti náttúrulega ekki að þurfa að umgangast fyrrum dópista og óforskammaðan forsetaframbjóðanda. Aðilar á vegum Landsbankans töluðu við listamanninn og lýstu því yfir að bankinn hyggðist ekki standa við gerða samninga ef af þessum gjörningi yrði.

Það er okkur öllum sem teljumst til íslenskra listamanna til skammar að af þessum kröfum var látið. Að Klink og Bank skyldi hafa breytt prógrammi opnunardagsins til að þóknast milljarðamæringnum, og að í raun allt listasamfélagið skyldi hafa sjálfritskoðað sig og ekki tekið þessa atburði til umfjöllunar eða umræðu fyrr en löngu eftir að Björgólfur var orðinn gjaldþrota. Maður gæti spurt sig, hver staða íslensks listasamfélags væri ef ekki hefði orðið hrun? Værum við öll að henda glimmeri framan í hvort annað, greifynjum og bankastjórum til heiðurs, til eilífðarnóns?

Við verðum að hætta að tala sífellt undir rós. Þöggun er þöggun.

Við búum í samfélagi þar sem lengi vel var haldinn listi yfir stjórnmálaskoðanir fólks og fólk með óæskilegar skoðanir var haldið út í kuldanum, frá stöðuhækkunum, vinnu og bankalánum. Þessari tilhneigingu er ekki lokið, við getum ekkert fullyrt um hvers konar skjöl fólk í trúnaðarstörfum Sjálfstæðisflokksins hefur aðgang að og hvað standi í þeim, en við vitum hvað stóð í skýrslunni sem Geir Jón varaþingmaður sama flokks og fyrrum lögreglustjóri tók saman um mótmælendur. Þar útlistar hann fjölskyldutengslum og stjórnmálaskoðunum að hætti gamla Íslands, og nú þegar nöfn og kennitölur allra sem fyrir koma í skýrslunni eru á almannavitorði er aldrei að vita hvernig það mun koma niður á framtíð þeirra. Hótanir eru hótanir eru hótanir.

Við búum í samfélagi þar sem blaðamenn eru reglulega ákærðir af fólki úr stjórnmála og viðskiptalífi, og dómstólar dæma til hárra fjársekta. (Sem jafnan er hnykkt fyrir mannréttindastólum út í Evrópu rétt eins og Jón Hreggviðsson var sýknaður forðum af kóngi). Við búum í samfélagi þar sem fyrrum aðstoðarkona dómsmálaráðherra krefst fangelsisdóms yfir tveim blaðamönnum fyrir að hafa komið upp um eitt alvarlegasta spillingarmál í sögu landsins. Um hreina og skýra hefndaraðgerð er að ræða, því það er vafasamt að hálfsdagsgrunur um að hún væri starfsmaður B hefði mikil áhrif á hana.

Ég spurði Snorra Ásmundsson sjálfan út í hvað honum fannst, hvort hann teldi að sérstakar aðstæður á Íslandi gerðu það að verkum að listamenn hér væru ókrítískir á samfélagið:

 

Já listamenn eru ókrítískir á samfélagið og óttast annað hvort um afkomuóöryggi sitt eða hreinlega eru fangar almenningsálitsins eða öllu heldur „elítunar”. Rammi listgyðjunnar er enginn, en rammi „elítunar” er lítill og þröngur. Okkur vantar auðvitað að sá rammi eða sjóndeildarhringur víkki. En auðvitað er vandasamt að koma skilaboðum til skila í samfélagi sem er stjórnað af ótta. Óttinn er auðvitað það sem stýrir manninum og þegar honum tekst að sigra óttann og eigin fordóma verður hann frjálsari.

 

Það er ekki annað hægt en að taka undir þessi orð. Fyrir utan að ósvífnir stjórnmálamenn hika ekki við að hóta með fjárveitingarvaldinu er almenningsálit á Íslandi óvægið í garð þess sem hrópar úr eyðimörkinni. Þegar Björgólfur átti bankann og keypti hvern listamanninn á fætur öðrum var hann í dýrlingatölu, jafnvel þótt sonur hans hótaði að kaupa dagblöð til að leggja þau niður, jafnvel þótt hann þvingaði bókaforlag í gjaldþrot fyrir að minnast á fyrrum hjónaband eiginkonu sinnar við Bandarískan nasistaforingja. Við létum okkur þetta ægivald yfir okkur ganga.

Listamenn réttlættu þetta fyrir sjálfum sér svona:
„var það ekki Medici ættin sem fjármagnaði ítölsku endurreisnina, voru þeir ekki hálfgerðir mafíósar? Setur það okkur ekki bara í flokk með Rafael eða Da Vinci að þiggja stuðning auðkýfinga?‟

Jú kannski, en ítölsku furstadæmin voru ekki lýðræðisríki. Fyrir tuttugustu öldina var listiðkun aðallega fjármögnuð af einræðisherrum, auðkýfingum og trúfélögum, en það breyttist með tilkomu nútímalýðræðis. Það má endalaust ræða hvaða hlutverki listamaðurinn eigi að gegna í nútímasamfélagi, og ég veit að við ræðum endalaust hversu mikið megi styrkja listina með almenningsfé og hversu mikið ætti að vera í höndum „markaðarins‟ svokallaða.

Að mínu mati ber listamönnum ekki skylda til að fjalla um samfélag sitt eða yfirhöfuð berjast gegn óréttlæti frekar en annað fólk. Listamenn ættu að fjalla um það sem liggur þeim á hjarta, fara þangað sem listræn vinna þeirra leiðir þau, hver sem útkoman verður. En við verðum að standa vörð um frelsi fólks til að skapa list og ef við viljum búa í raunverulegu lýðræði eigum við að sýna samstöðu gegn hvers kyns ritskoðun.

Þess vegna skrifa ég í dag: stöndum saman og móðgum framsóknarmann. Annars verður það bara hjákátlegt næst þegar við klöppum fyrir Pussy Riot eða kvörtum yfir því að enginn skyldi hafa varað okkur við næsta hruni. Samfélag þöggunar er byggt á óformlegu samþykki um að enginn í þorpinu eigi að vera öðruvísi eða skrítinn, og að það sé dónalegt að orða hlutina hreint út. En hótun er hótun er hótun.


Snæbjörn Brynjarsson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s