Börn eiga að fá að velja sína eigin list- viðtal við Vigdísi Jakobsdóttur

Þessa helgi verður Útlenski drengurinn eftir Þórarinn Leifsson frumsýndur í Tjarnarbíó. Reykvélin sló á þráðinn og spjallaði við Vigdísi Jakobsdóttur leikstjóra verksins. Vigdís situr í yfirstjórn ASSITEJ samtakanna (alþjóðlegra samtaka um barna-og unglingasleikhús) og er formaður þeirra hér á landi en hún átti einnig frumkvæðið að stofnun fræðsludeildar Þjóðleikhússins. Því var tilvalið að spyrja hana í leiðinni um stöðu barnamenningar hér á landi.

 

Út á hvað gengur útlenski drengurinn. Er þetta ádeila á íslenskt samfélag, eins og Þórarinn Leifsson oft er með? (Sjá meira um höfund hér)

 

Útlenski drengurinn er absúrd kómedía fyrir unglinga og eldri og þó vissulega sé hægt að njóta verksins sem gamanleiks leynist þar óumdeilanlega ádeila á íslenskt samfélag. Verkið fjallar um Dóra litla (leikinn af Dóra DNA) sem er vinsælasti strákurinn í skólanum. Aðstoðarskólastjórinn (sem Þorsteinn Bachmann leikur) lætur bekkinnn taka svokallað Pítsa próf og kallar foreldra Dóra litla á sinn fund í kjölfarið til þess að segja þeim slæmar fréttir. Dóri litli er, skv. Niðurstöðu prófsins, útlenskur. Í kjölfarið upphefst alls konar vitleysa, þar sem Dóri litli er orðinn að fanga í skólanum sínum og allt og allir snúast gegn honum. Hann, sem „tilheyrði“ er nú orðinn að „hinum“. Fyrir mér fjallar verkið um það hversu stutt er á milli þessara tveggja póla. Verkið spyr í raun spurninga um hvernig við tökum á móti flóttamönnum á Íslandi og líka um hversu nálægt íslenskt samfélag er þjóðernishyggju oft á tíðum. Þórarni tekst að gera það án þess að detta í predíkunartón eða pólitíska rétthugsun. Verkið er fyrst og fremst skemmtilegt.
_C9Q0372 copy

Nú ert þú formaður ASSITEJ á Íslandi. Hvernig sýnist þér staðan á leiklist fyrir ungt fólk vera á Íslandi í samanburði við t.d. nágrannalönd, en kannski líka við fortíðina. Eru miklar sveiflur í hversu mikið af efni er framleitt handa ungu fólki, og í gæðum? Er staðan betri eða veikari en fyrir 10 árum eða 20?

 

Í gegnum stjórnarsetu mína í ASSITEJ á alþjóðavettvangi hef fengið tækifæri til þess að kynnast starfsumhverfi sviðslistafólks víða um heim, m.a. í Evrópu, í Asíu og Suður-Ameríku. Stóri munurinn á sviðslistum fyrir yngri áhorfendur hér, og í flestum ef ekki öllum þeim löndum sem ég hef komið til, er að hér stýrist verkefnaval fyrst og fremst af smekk og áhuga foreldra. Hér er lögð áhersla á fjölskyldusýningar sem eru sýndar um helgar. Erlendis er barna- og unglingaleikhús fyrst og fremst miðað að skólahópum, hvort sem um er að ræða farandsýningar eða ekki.

Þessi munur hefur afgerandi áhrif á verkefnaval, innihald, stíl og form. Annars vegar er um að ræða hvað foreldrarnir vilja og hins vegar hvað kennararnir vilja. Í báðum tilfellum er það fullorðið fólk sem tekur ákvarðanirnar, þó t.d. í Danmörku sé farið að vinna markvisst að því að gefa börnum og ungmennum vald til að velja hvaða sýningar eru keyptar inn í skólana.

Það að hérlendis skuli vera þessi áhersla á sýningar sem öll fjölskyldan getur notið saman, þýðir að söngleikir og aðrar stórar litríkar sýningar á þekktum verkum verða oft ofan á. Áferðafallegar en í raun nánast undantekningalaust innihaldsrýrar skrautsýningar. Þessar sýningar þurfa að höfða til breiðs hóps og því afstöðulausari og almennari sem þær eru, þeim mun auðveldara er að selja þær. Vandamálið hjá sumum nágrannaþjóðunum, þar sem barnaleikhúsbransinn er allur miðaður að skólum, er að þar fá börn oft ekki tækifæri til þess að sjá vandaðar stórar sýningar á stórum sviðum þar sem öllum leikhúsgöldrunum er beitt. Börn fá þar ekki að sjá leikhús í allri sinni stærð, en þeim mun meira af litlum tveggja til þriggja manna sýningum þar sem tekist er á við alls kyns „málefni“.

_C9Q0478 copy

Já, framboðið er vissulega sveiflukennt. Íslenskt leikhúslíf fékk nokkuð gott spark í rassinn vorið 2013 þegar í ljós kom að ekki yrðu veitt Grímuverðlaun fyrir barnasýningu það árið vegna þess að lágmarks fjölda sýninga fyrir flokkinn var ekki náð. Að minnsta kosti voru fleiri sýningar í boði strax í fyrra og mér sýnist eins og veturinn í vetur ætli að verða nokkuð gjöfull á leiksýningar fyrir börn og ungmenni. Ég vona að raunveruleg vitundarvakning sé að eiga sér stað bæði hjá listafólki, leikhússtjórum og fjárveitingavaldinu. Börn og unglingar eru fjórðungur þjóðarinnar og framboð á sviðslistum við þeirra hæfi ætti að endurspegla það hlutfall.

Ég hef ekki gert neina vísindalega úttekt á því hvort staðan sé veikari eða sterkari en fyrir einum eða tveimur áratugum. Ég reikna með því að þar fari svarið eftir því hvar mælistikan er sett.

 

Ætti að reka sérstofnun sem sérhæfir sig í barnaleikhúsi eins og víða annars staðar? Sjálfur sakna ég svolítið gamla möguleikhússins eða einhvers viðlíka batterís, en kannski væri betra að eyrnamerkja ákveðnar upphæðir úr sviðslistasjóð í barnaleikhús, væri það of mikil pólitísk stýring? Eða myndi duga að þínu mati að stóru leikhúsin væru meðvitaðri?

 

Mig dreymir líka, eins og þig, um að hér geti orðið til sérhæft barnaleikhús í anda t.d. Unicorn Theatre í London eða Grips leikhússins í Berlín. Leikhús sem er í beinu samtali við áhorfendur sína, pólitískt, krefjandi og spennandi. Ekki bara sápukúluverksmiðjur.

Ég er eindregin stuðningsmanneskja þess að hérlendis verði stofnað ekki bara barnaleikhús heldur barnamenningarhús.  Slík stofnun getur gegnt veigamiklu hlutverki í því að auka framboð á listum og menningu fyrir börn og ungmenni og fagmennsku á þessum vettvangi. Íslenskt listafólk þarf að opna augu sín fyrir þeim möguleikum sem starf fyrir, um og með börnum og unglingum hefur upp á að bjóða. Allt of margir telja sig þurfa að gefa einhvern listrænan afslátt á vinnu sinni þegar þeir gera list fyrir börn eða unglinga. Þannig er það að sjálfsögðu ekki. Börn eiga rétt á því að hafa aðgang að list sem er allt eins fjölbreytt, innihaldsrík og unnina af jafn miklu listfengi og önnur list.

Ég er í prinsippinu ekki hlynnt því að eyrnamerkja fé úr sviðslistasjóði í barnasýningar. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að skapa betri og breiðari starfsgrundvöll fyrir sviðslistahópa sem gera barna- og unglingasýningar. Menningarpoki (sbr. norski „Kulturelle skolesekken“), barnamenningarhús og stuðningur við verkefni þar sem börn hafa beina aðkomu væru allt skref í þá átt.

 

Snæbjörn Brynjarsson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s