Enginn að kolonísera Noreg

Ula Sickle&Yann Leguay 2.hluti viðtals

Prelude, Kaaitheater, Brussel. Sjötti nóvember.
Ég er nýbúinn að koma mér fyrir í sæti og ljósið er farið að dofna meðal áhorfenda. Fljótt er orðið of dimmt til að lesa leikskrána en samt virðist ljósið ekki ætla að kvikna á sviðinu sjálfu heldur bara fjara óendanlega lengi út. Fyrir aftan áhorfendapallana heyri ég söng, einhver syngur bakvið okkur og færir sig til í rýminu. Söngurinn endurvarpast og endurtekur sig, verður ómstríður, nánast óbærilegur á sama tíma og dauft ljósið verður sífellt meira óþolandi. Ég sé ekkert skýrt nema ég píri augun, það er nánast almyrkur og hefur verið lengi.

Það er ekki fyrr en söngkonan stígur á svið sem eitthvað breytist. Hversdagsleg föt, gallabuxur og vindjakki prýða hana en hún heldur á svörtum plastpoka og snýr baki í okkur. Vindur fer yfir sviðið og í huga mér sé ég fyrir mér að hún standi ein í norskum firði í hvassviðri og sé að bíða eftir strætó. Hún hummar eitthvað fyrir sjálfa sig í vindinum. Verkið tekur sinn tíma. Það er fallegt. Það sekkur í bein okkar, húð, hár og hold. Ég finn sjálfur fyrir vindinum sem vindvélin býr til á sviðinu, og óþægileg lýsing og hljóðmynd magna þessa tilfinningu upp. Þessi óþolandi náttúra. Þessa hvassa, bitra og grimma náttúra.

Innan skamms fer söngkonan að hlaupa um sviðið. Stór flúorljós teygja sig eftir sviðinu og hvæsa á okkur þegar þau kvikna og slökkna. Þau stinga augun þegar það kviknar á þeim.

Rigning. Hún er að hlaupa í rigningunni. Hún hleypur í rigningunni og syngur.

Ég kannast við þennan leik. Hversu oft hef ég ekki séð íslenska listamenn selja sig út á náttúruöflin. Einmitt með svona mínimalisma. Einræða Stine Janvin Motland þegar hún sest niður og talar til áhorfenda um norska firði, barnæsku sína og draum um að eiga bóndabæ sannfærir mig: Það er verið að selja Belgum, (og auðvitað Þjóðverjum, Frökkum og öðrum Evrópuþjóðum sem flytja inn leiklist) sýninguna út á norskan exótisma.

ula 3

Kaffi Or, viku síðar.

Snæbjörn:
Svo við höldum áfram þar sem frá var horfið. Þú kannast við koloníalista gagnrýni á verk unnin með listafólki frá Kinshasa eins og því sem þú frumsýndir í vor og í verkunum Solid Gold og Jolie sem flutt eru til Íslands.

Ula:
Já, ég hef kynnst þessari gagnrýni. Líka frá öðru listafólki. Mitt álit er það, að mjög fá tækifæri eru fyrir listamenn í Kinshasa, og þá er betra að bjóða þeim í samstarf og skilja við listasamfélagið þar öflugra og sterkara en að gera ekkert.

Snæbjörn:
En enginn segir þetta þegar þú gerir verk með norskri söngkonu.

Ula:
Nei einmitt. Enginn segir að ég sé að kolóníalísera Noreg, jafnvel þótt við séum að nota norska fólkmúsík í verkinu. Hún [Stine] jafnvel dansar þjóðdansa.
En eins og þú nefndir áðan, þá var Avignonhátíðin gagnrýnd í fyrra fyrir þetta, sem er furðulegt því hátíðin flutti inn sýningar eftir listamenn og gaf þeim mikið vald. Þá skil ég gagnrýnina meira á mig því ég er að vinna með ungu, minna mótuðu listafólki. Auðvitað er samt Dinozord sjálfur að túra um Evrópu með verk og sinni eigin hljómsveit. Hann hefur mjög mótaðan listrænan karakter. Jolie hins vegar er að læra í P.A.R.T.S. Hér í Brussel, að elta draum sinn um að verða samtímadansari.

Fyrir mér snýst þetta um að byggja gott samband, ekki að dóminera þeim sem ég vinn með.

Yann:

Þetta er samtal. Við sjáum hvað fólk getur gert og hvað það vill gera. Við mótum ákveðin strúktúr og þau eru með sitt rými innan hans


Snæbjörn:
Ég hef einungis séð Prelude svo mín hugmynd um verk ykkar mótast aðallega frá þeirri sýningu. Ég fékk á tilfinninguna að þið ynnuð mikið með persónuleika flytjandans. Að verkin fjölluðu um flytjendurna.

Ula:
Prelude var eflaust mest persónulega sýningin. En ég held að hvert sóló segi eitthvað um dansarann, þau eru t.d. mjög kynferðisleg, performerinn er mjög kynferðisleg vera.
En tökum Jolie sem dæmi. Sólóinn hennar snýst um draum hennar um að fá að dansa, að vinna við að dansa. Og við spyrjum okkur hvernig við getum miðlað því, búið til tungumál fyrir hana.

ula 4

Yann:
Það má bera það saman við að mála málverk af einhverjum til að byrja með. Við komum inn til að draga upp mynd af listamanninum, en ef við hlustum á hann þá hættir það bara að vera við að mála hann, heldur fær persóna hans að ráða för.

Ula:
Það sem fíla við Dinozords sóló er að það er svo mikið „hann,‟ en líka ekki hann. Eftir verkið með okkur gerði hann annað sólóverk sem var mun persónulegra.

Mig langar ekki til að taka bara sögu fólks og nota. Ég vil ekki eigna mér sögur þeirra. Þeim er frjálst að taka þær og skoða á mun dýpri máta sjálft, en það er ekki það sem við erum að gera.
Það sem ég fíla við sóló er að þau eru bæði almenn og sértæk. Sumir danshöfundar fara virkilega í gegnum nærföt flytjenda, [hlær] en aðrir ekki.

Snæbjörn:
Það er kannski mín tilfinning af því að sjá Prelude, sem að sumu leyti minnir á viðtal.

Ula:

Í sýningunni sjáum við Stine en ég held að maður geti líka auðveldlega séð sjálfan sig í henni að segja þessa hluti. Ég get sagt það sama um sjálfa mig. Mig langar að búa í sveit líka.

Svo þetta er persónulegt en þetta er líka stærra en persónulegt.

Snæbjörn:
Ég var mjög hrifinn af ljósunum og hljóðmyndinni í byrjun sýningar, hún var vægt óþægileg og furðu líkamleg, hljóðið sem kom úr öllum áttum og myrkrið sem helltist yfir. En mig langar að spyrja ykkur hvaða effektum þið reynið að ná í sýningum. Spilið þið frekar á tilfinningar heldur en intellektið?

Yann:
Ljós og hljóð á sviði eru tákn, þarna voru þau veðurfarsleg. Hljóðbylgjurnar eins og öldur. Og ljósið var náttúrulegt. Við lýstum ekki sviðið heldur rýmið í kring. Sviðið lýsist bara með. En hugmyndin var að hafa það náttúrulegt, þema verksins er í umhverfismálum.

Hljóðið líka er tákn. Við notum söngröddina eins og sírenu, nokkurs konar viðvörun.

Snæbjörn:
Ég las að þið voruð að tala um umhverfismálefni, en ég var ekki alveg að ná því satt að segja. Ekki að ég hafi ekki haft gaman af sýningunni … en leikskráin er full af orðum eins og „resilience,‟ ekki í hefðbundinni merkingu orðsins heldur sem líffræðilegt hugtak, en þær pælingar skiluðu sér ekki til mín. Ég sá verk um norska söngkonu og jú norskt veðurfar. Er mikilvægt fyrir ykkur að tjá hugmyndir ykkar? Að þær komist til skila til áhorfenda.

Yann:
Nei. Ég held ekki. Maður byrjar á einum punkti og endar kannski annars staðar. Þetta er upprunalegi efniviðurinn, svolítið eins og að velja liti. Fyrir mér er það meira abstrakt. Ég er ekki að miðla ákveðnum skilaboðum. Hef meiri áhuga á áferðinni. Maður byrjar að vinna með eitt og það getur vel endað á að vera eitthvað annað.
Og augljóslega túlkað á ýmsa vegu af ýmsu fólki.

Ula:
Fyrir mér er að það athyglisverða við „resilience‟ hugtakið að það er ekki siðferðislegt spursmál. Ekki eins og þegar verið er að tala um „sjálfbærni,‟ að maður verði að lifa á einhvern ákveðinn vistvænan máta. Spurningin er hvað þú gerir í þessum kringumstæðum. Hvernig maður lifir af. Og ég held að áhorfendur sjái það, eða skynji, en það er mjög opið. Fyrir mér snýst það um hana að aðlaga sig að umhverfi sínu.

Það er ekki höfuðatriði hvað þú lest úr því.

Snæbjörn:
Ég gat virkilega fundið fyrir náttúruöflunum í gegnum ljósin og hljóðið, og sett mig í spor Stine. En þið munuð finna það líka þegar þið komið til Íslands. Þetta hræðilega veður.
Nóvember auðvitað ekki besti mánuðurinn til að heimsækja landið.

Ula:
Af því það er kalt.

Snæbjörn:
Ekki svo kalt. Frekar rokið.

Ula:
Við getum gert smá rannsókn á því. Fyrir næsta hluta.

Að því sögðu óska ég viðmælendum góðs gengis í rokinu og klára kaffið mitt.
Meiri upplýsingar um Solid Gold og Jolie má svo finna á síðu Reykjavík Dancefestival hér.

Snæbjörn Brynjarsson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s