Viðtal við Mörtu Nordal um Ofsa og leikhópinn Aldrei óstelandi

Í bókum Einars Kárasonar er gefin innsýn í líf og persónur Sturlungaaldar og bókin Ofsi hverfist helst um heimkomu Gissurar Þorvaldssonar og upptökin að Flugumýrarbrennu. Í leikverkinu Ofsa sjáum við kjólfataklædda leikara í hljóðveri sem minnir á Stúdíó 12 í Efstaleiti. Geturðu sagt okkur örlítið frá því hvernig þú færð hugmyndina að þessari nálgun?

Þegar ég las fyrst Ofsa þá heillaðist ég af nálgun Einars; hvernig hann færir þetta fólk nær okkur með því að skyggnast inn í sálarlíf þeirra og reyna að lesa í ástæður fyrir gjörðum þeirra. Ég hafði séð sýningu Jóns Atla á Djúpinu og fannst leiðin að þessu verki liggja í slíkum einfaldleika. Bókin byggist á einræðum og sjónarhóli hvers og eins á sömu atburði. Í raun erum við að fara þá leið öðrum þræði þó að þetta sé sett inní útvarpsstúdíó/tónleikarými. Lýsingar í Sturlungu eru mjög myndrænar og atburðirnir eru ógurlegir. Mér fannst spennandi að draga hættuna fram í hljóði fremur en mynd til að gefa okkur og áhorfendum meira frelsi til túlkunar og virkja önnur skilningarvit en venjulega líkt og í útvarpi.

Hugmyndin að hljóðstúdíói kviknaði útfrá þeirri löngun að segja söguna á annan hátt og taka hana út úr venjubundnu raunsæi og detta ekki ofan í klisjur, svo er þessi leið líka eðlilegt framhald af því sem við höfum verið að gera. Þessi nálgun kallar líka á aðra afstöðu listamanna í verkinu. Ég alltaf heillast af því hvernig tónlistarmenn flytja tónlist t.d. finnst mér ekki síður gaman að horfa á Sinfóníu Íslands spila verk heldur en að hlusta á hana. Afstaða þeirra þegar þau eru að undirbúa sig eða bíða eftir innkomu, hlustunin, einfaldleikinn og handverkið. Mér fannst gaman að skoða það í leikhúsi.

Í þeim fjórum sýningum sem Aldrei óstelandi hafa gert má greina ákveðin stíleinkenni en líka að það sé alltaf einhver þróun eða leit í gangi. Ertu meðvitað að þróa vinnuramma eða fagurfræði? Ertu hrædd um að detta inn á formúlu sem fær þig til að hætta að leita?
Við höfum mikinn áhuga á að skoða leikhúsformið, nálgast það á óhefðbundinn hátt og kanna aðra miðla innan þess. Nú er ég mjög upptekin af hljóðheimi svo sem útvarpi og upptökum og heiminum utan sviðsins. En við nálgumst það á fremur hefðbundinn hátt, efniviðurinn er oftast leikrit eða sterk saga og grunnvinnan er fremur hefðbundinn þ.e.a.s. leikaravinnan og tæknileg útfærsla. Hins vegar er framsetningin óhefðbundin og það er gaman ef maður nær að vinna á mörgum plönum; með áhrifamikla sögu en stækka jafnframt upplifun áhorfandans með því að taka þá úr þægindaramma hins fyrirsjáanlega. Þetta er auðvitað alltaf leit. Maður hefur einhverjar hugmyndir en þarf svo að kanna hvað hvað sviðið þolir og hvað ekki. Sumar hugmyndir ganga ekki upp og reynslumiklir leikarar finna það yfirleitt mjög fljótt hvað virkar og hvað ekki. Mér finnst best að leggja af stað með sterka hugmyndafræðilega nálgun og sýn sem síðan breytist í útfærslu þegar maður byrjar að vinna á gólfi. Í þessu tilfelli lögðum við af stað með hljóðnálgun/útvarpsstúdíó og fórum í talsvert ferðalag til að ná réttri nálgun á því konsepti. Leikhópurinn er mjög sterkur og hefur miklar skoðanir bæði á konsepti og allri útfærslu þannig að þegar komið er útá gólf falla sumar hugmyndir og aðrar koma í staðinn. Þegar við settum upp Ofsa þá fór mikill tími í þróun handrits og finna réttu leiðirnar innan þessa konsepts.

Ég er ekki meðvitað að þróa vinnuramma nei en ég held að sýningarnar muni alltaf endurspegla smekk okkar og fagurfræði. Ég bý til leikhús sem ég vil sjálf sjá, vinn með hugmyndir sem vekja áhuga minn og fagurfræði skiptir mig miklu máli og ég held að hún endurspeglist í sýningum okkar. Við erum alltaf að leita innan þess ramma sem ég set fyrir alveg fram á síðustu daga fyrir frumsýningu og ég held að ef sú leit hætti þá myndi ég staðna. Það er mjög mikilvægt fyrir listamann að geta endurnýjað sig, vera ferskur í hugsun og taka listræna áhættu. Um leið og maður fer að reyna að þóknast einhverjum eða búa til eitthvað sem maður heldur að falli í kramið þá er þetta búið. Mér finnst líka mjög mikilvægt að vinna með fólki sem ögrar hugmyndum manns, spyr spurninga, það skerpir sýnina og erindið. Ég er ekki beinlínis hrædd um að festast í einhverri formúlu frekar að missa ferskleikann og dirfskuna held að það sé ótti margra listamanna. Það er líka mikilvægt að muna að margir listamenn eru alltaf að vinna með sömu aðferðir og hugmyndir í sinni listsköpun og þróa þær svo áfram á sínum ferli, það ber ekki vott um stöðnun heldur eru þeir að fara dýpra ofaní ákveðinn hugmyndaheimm og uppgötva sífellt fleiri möguleika innan hans. Margt sem mann langar að gera í einni sýningu gengur kannski betur upp í þeirri næstu því allt er þetta samspil margra þátta.

Áttu þér einhverja áhrifavalda innan leiklistar? Hvaðan sækirðu innblástur? (Ég er líklega að spyrja um Katie Mitchell.)

Við Edda sáum ógleymanlega sýningu eftir Katie Mitchell í Berlín og hún hafði mjög mikil áhrif á okkur. Ég hef bara aldrei séð svona leikhús áður þar sem maður horfði á kvikmyndagerð á sviði. Fagurfræðin er allt önnur en maður á að venjast og auga fyrir smáatriðum og handverki er engu líkt. Katie Mitchell segir sögu meira útfrá tilfinningu og skapar andrúmsloft fremur en með framvindu. Þó að hún sé svona meðvitað að vinna með handverkið þá eru sýningarnar ljóðrænar og afstaðan allt önnur en í hefðbundnu leikhúsi. Fyrir mér opnaði þetta nýjan heim af möguleikum. Ég heillast líka af svona vel hugsuðum sýningum þar sem maður finnur fyrir dýptinni í allri vinnunni, ekkert er vanhugsað; Hvers vegna gerirðu þetta? Hver er pælingin og af hverju seturðu hana svona fram? Dans hefur líka alltaf verið mikill áhrifavaldur í minni listsköpun, ég var í dansi þegar ég var yngri og hann hefur alltaf talað sterkt til mín og danssýningar finnst mér oft meira inspirerandi en leikhús því formið er svo opið og abstrakt og tjáningin er frjálsari. Mig langar líka að nefna Ragnar Kjartansson því hann er alltaf að daðra við leikhúsið í sinni myndlist og opnar nýjan heim bæði innan myndlistar og leikhúss. Hugmyndir hans eru einfaldar og skýrar en á sama tíma svo brilljant.

Hvað er það við hljóðvinnslu í leikhúsi sem heillar þig svona mikið?
Góð spurning, kannski er það tærleikinn í því og einfaldleikinn og einnig möguleikarnir sem felast í hljóðvinnslu, þeir eru alveg endalausir. Það er mjög dýnamiskt þegar það tekst að láta þessa tvo miðla mætast með þessum hætti. Þú hefur tækifæri til að sýna eitt og segja annað með mjög afgerandi hætti. Það er líka auðvelt að vísa útfyrir sviðið á þennan hátt og jafnvel útfyrir verkið. Það opnar líka möguleika á túlkun og örvar önnur skynfæri áhorfandans. Maður fer í leikhús og hefur mjög fastmótaðar hugmyndir um hvað leikhús er eða á að vera og í langflestum tilfellum fær maður það sem maður býst við. Ég hef mikinn áhuga á að brjótast útúr þessu formi sem listamaður, brjótast útúr hinu venjubundna. Þegar ég fer í leikhús þá þrái ég að sjá eitthvað sem er ekki fyrirsjáanlegt, hvort sem það er í leik, aðferð eða sýn. Þegar það gerist og bakvið það er skýr hugsun og tilfinning þá stækkar eitthvað innra með mér og nýjar hugmyndir kvikna.

Er eitthvað umfjöllunarefni í Ofsa sem þér finnst sérstaklega brennandi á samfélaginu okkar í dag?

Já þau átök sem þarna birtast eiga sér stað í okkar samfélagi þó að birtingarmyndin sé önnur. Á Sturlungaöld vógust menn á með sverðum og blóði var úthellt en í dag notum við orð og netið til að vega hvert annað. Valdabarátta þessa tíma er jafn raunveruleg í dag og þá sem og veiklyndi og hégómagirnd mannanna. Í Ofsa verður ego eins manns til þess að langþráðar sættir eru settar uppí loft, minnimáttarkennd hans og veiklyndi verða til þess að hann sér ekki hagsmuni heildarinnar en lætur eiginhagsmuni ganga fyrir með hryllilegum afleiðingum. Þetta er borgarstyrjöld sem að tekur engan enda því enginn er tilbúinn til að gefa eftir og það er líkt og í okkar samfélagi að ef menn gefa aldrei eftir í átökum þá verður enginn sátt um eitt eða neitt. Það sem er svo snjallt í þessari bók að Einar leiðir okkar eiginlega inní svefnherbergi þeirra hjóna til að finna neistann sem kveikir bál þessara voðaverka. Við erum öll manneskjur og oft eru teknar ákvarðanir hjá valdamiklu fólki sem eru byggðar á afar veikum grunni sem rekja má jafnvel inní þeirra veika sálarlíf og slæma hjónaband.

 

Árni Kristjánsson tók viðtal við Mörtu Nordal

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s