Hátíð kóreografíunnar- viðtal við Ásgerði Gunnarsdóttur og Alexander Roberts

Fyrir ári síðan tóku Ásgerður G. Gunnarsdóttir og Alexander Roberts við Reykjavík Dancefestival. Hátíðin hefur verið að festa sig í sessi og taka miklum breytingum á sama tíma. Ólíkt Lókal hefur hátíðin aldrei verið undir stjórn sama fólks til lengri tíma en nú verður breyting á, því Ásgerður og Alexander verða með hátíðina næstu tvö ár að minnsta kosti. Við svona hátíð eru ýmsar áskoranir, ekki síst fjárhagslegar á litlu landi eins og Íslandi, en líka menningarpólitískar. Sem eina danshátíðin hefur Reykjavík Dancefestival mikla ábyrgð og veigamikið hlutverk í allri menningarumræðu á Íslandi.

Reykvélin spurði stjórnendur hátíðarinnar, Ásgerði og Alexander tveggja langra spurninga og fékk tvö löng svör. 

 

Spurning 1:

Hvað sjáið þið sem megin tilgang hátíða á borð við Reykjavík Dancefestival, ólíkt eða svipað t.d. því að reka leikhús eða aðra listastofnun? Eitt af því sem er augljóslega öðruvísi er tímaramminn, stjórnandi leikhúss þarf að skipuleggja heilt ár á meðan hátíðin er að hugsa um dagskrá yfir nokkurra daga tímabil. Nú hefur RVKdancefestival dreift úr sér yfir allt árið, breytir það miklu um eðli hátíðarinnar?

 

Já, við teljum að það breyti eðli hennar þónokkuð, en það var það sem við líka vorum að leitast eftir með breytingunni. Okkur fannst við sem listrænir stjórnendur hafa mjög takmarkaðan ramma með hátíð sem fer fram einungis einu sinni á ári, sérstaklega þar sem hátíðin hefur gífurlega stóru hlutverki að gegna í menningarlegu samhengi landsins. Hátíðin skal styðja við danshöfunda á Íslandi, flytja til landsins erlend verk, efla umræðu og orðræðu um formið og í leiðinni færa dansinn meira til hins almenna borgara. Það segir sig sjálft að það er ansi erfitt að framkvæma allt þetta – og gera það vel – á einungis nokkrum dögum í ágúst mánuði.

 

Önnur ástæða fyrir breytingunni var sú að möguleikinn á að sjá dansverk á Íslandi er mjög takmarkaður – það er hægt að fara í leikhús, á myndlistaropnun, sýningu eða tónleika nærri því allar helgar – en kannski 3-4 á ári er hægt að sjá dansverk. Við viljum að danslistin fái stærri sess í menningarlífi Íslands – og til að gera það þarf listformið að vera sýnilegra og Íslendingar að hafa fleiri möguleika  á að sjá dansverk.

 

Einnig vildum við eiga möguleikann á geta verið fókuseruð og sérhæfð í hverri útgáfu fyrir sig. Til dæmis var áherslan í ágúst á danshöfunda á Íslandi og verk þeirra – og nú bjóðum við upp á dagskrá þar sem við beinum kastljósinu að poppmenningu. Þetta gefur okkur tækifæri tið að vera sértækari í hvert skipti og bjóða upp á verk sem vinna með mismunandi hugmyndir, orðræður og fagurfræði í hvert skipti. Danslistin er svo fjölbreytt form – og við viljum sýna eins margar aðferðir og birtingarmyndir hennar og við getum.

 

Með þessari breytingu sjáum við okkur geta sinnt tilgangi hennar – einnig teljum við að á Íslandi þá sé absúrd að halda hátíðina einungis einu sinni á ári, þegar það eru svo fá samtök og stofnanir sem vinna að því að halda við og stækka menningu og samfélag í kringum dans og kóreografíu yfir árið. Við viljum skapa hjartslátt, púls, hátíð sem er virk og lifandi yfir árið en birtist ekki bara einu sinni og hverfur svo.

 

Meginspurningin fyrir okkur og í raun leiðarljós er hvernig við getum skapað samhengi hér á Íslandi, þar sem listamenn og áhorfendur geta átt í samtali í gegnum -og um- dans og kóreógrafíu. Sú ákvörðun að breyta hátíðinni úr einni í fjórar er þvi ekki einhver endastöð, heldur einungis annað skref í að reyna að skapa þetta samhengi.

 

Spurning 2:

Mér þætti forvitnilegt að vita hvað ykkur finnst um eðli danshátíðar ólíkt til dæmis performance-hátíðar, sviðslistarhátíðar, leikhúshátíðar. Eitt af því sem ég hef verið mjög hrifinn af er hvernig þið í Ágúst blönduðuð myndlist mikið inn í dagskrána, og nú eruð þið með Friðgeir Einarsson, eða leikhópinn Kriðpleir að setja upp verk um réttarhöld Jóns Hreggviðssonar, eitthvað sem ég geri ráð fyrir að séu líka réttarhöld yfir Laxness og íslensku dómsmálakerfi, en mjög líklega frekar textamiðað verk. (leikskáldið Bjarni Jónsson skrifaður fyrir textanum). Það verk lítur út eins og dæmigert Lókal verk, a.m.k. ekki eitthvað sem maður hefur séð áður á RVK dancefestival. Er ykkar skilgreining á danslistinni víðari en fyrri stjórnenda?

 

Hm… þetta er alltaf spurning… „Choreography‟ [innskot: héðan af íslenskuð sem kóreografía]– eins og við hugsum orðið – er á einni hönd leið til að framleiða og á hinn bóginn leið til að greina.

 

Ræðum Síðbúna Rannsókn Kriðpleirs svo dæmi sé tekið -sýningu sem ekkert okkar hefur séð- frá þessum tveim sjónarhólum.

 

„Kóreografía‟ – sem framleiðsluaðferð – myndi fela í sér að listamaðurinn kysi að nota „kóreografískar strategíur‟ [choreographic tactics and strategies] í þeirra sköpunarferli. Svo við getum spurt okkur, gerði hópurinn Kriðpleir þetta?

 

Ef svarið er já, ættum við þá að kvarta ef niðurstaðan er bók eða myndasýning – frekar en dans? Á hvaða forsendum erum við óánægð? Eru við gröm yfir því að það sem þau sköpuðu sé ekki nógu svipað því sem við höfum séð áður?

Erum við að fara á danssýningar og „kóreografísk‟ verk til þess að tékka á því að þau séu eins og síðast? Erum við ekki að líta til listamanna í von um að þeir skapi aðra möguleika fyrir okkur til að framkvæma, segja, hugsa, gera, finna, elska og deila, hlusta, horfa og taka þátt í? Við teljum að þetta sé einmitt það sem við væntum af listamönnum.

Spurningin í hjarta RDF er ávallt: Hvað getur dans og „kóreografía‟ gert? Þetta er spurning sem við vonum að geta ávallt stillt hugsanlega áhorfendur hátíðarinnar. Ef þetta er spurningin, sem hún er, þá hlýtur það að vera sjálfsmorð að krefjast þess að allt sköpunarferli í kringum dans og danshöfunda komist að niðurstöðu sem við nú þegar þekkjum til og viðurkennum sem mögulega í tengslum við dans og „kóreógrafíu.‟

Hvað varðar Kriðpleir, kannski er athyglisverðasta spurningin að spyrja þau hvað þeim finnist um að verk þeirra séu tengd við „kóreografíu‟. Kannski myndu þau segja að þau væru á engan hátt að fást við „kóreografíu‟ í verkum sínum. Að þau dansi ekki. Það myndi þýða við hefðum „kóreografíu‟ einungis til staðar sem greiningartæki.

 

Hvað okkur varðar erum við mest spennt fyrir Síðbúinni Rannsókn af því þau takast á við kvikmyndaformið sem félagslegt fyrirbrigði. Við getum kallað þetta: „félagslega kóreografíu‟.

Já, þetta fjallar um síðbúna morðrannsókn en einnig kvikmyndahúsið sem félagslegt rými og þar kemur „kóreografían‟ inn í málið.

Franski „kóreograferinn‟ Jerome Bel kynnti þá hugmynd sína að leikhús [innskot: theatre er þægilegra orð augljóslega því það skírskotar bæði til hússins og listarinnar sem getur verið utan hússins, en ég leyfi mér að þýða orð Alexanders sem leikhús þar sem við erum að ræða rýmið sjálft.] að leikhús mætti hugsa sem „kóreógrafíu‟, sem félagslega stöðu sem maður ætti ekki að gefa sér út frá verkunum sem fylla sviðið, heldur eitthvað sem ætti að taka eftir og velta fyrir sér. Í verki hans, The Show Must Go On, má segja að undirstaðan sé: „hvað getur leikhúsið sem sérstök félagsleg kóreografía gert? Hvað er það fært um að gera?‟ Og þetta er ekki spurning sem hann felur, heldur lýsir yfir hátt og snjallt og gegnumgangandi í verkinu.

 

Kvikmyndahúsið, þrátt fyrir að vera ekki leikhús, er annars konar félagsleg „kóreografía‟ ekki satt? Við þekkjum öll aðstæðurnar sem felast í að sitja í myrkvuðu rými, hlusta og horfa á mynd. Kriðpleir tekur félagslega „kóreografíu‟ sem byrjunarpunkt verki þeirra. Með notkun þess, getum við ímyndað okkur – þótt við höfum ekki séð verkið ennþá – að þeir ætli að bjóða okkur upp á að endurhugsa hvernig við hlustum, horfum og tökum þátt sem hópur í kvikmyndahúsi. „Kóreógrafía‟ gefur okkur aðferð til að hugsa um þetta verk á þessum forsendum.

 

Að lokum – gætum við sagt- í Kriðpleir höfum við hóp af listamönnum sem búa á Íslandi og hafa í gegnum þeirra fyrri verk með „kóreógrafíu‟ og dansi, lagt sitt af mörkum listrænt til að auðga samtalið og senunna hérlendis. Með því að setja þau í samhengi við RDF, getum við vonað að það dragi þau lengra inn í samtalið um senuna í dag. Við viljum þau sem part af RDF til að búa til samtal – að hluta til. Við viljum bjóða þeim og öðrum að hugsa með verkum þeirra, við hlið annarra verka í þessari útgáfu hátíðarinnar. Það lítur út fyrir að þau hafi tekið boðinu – að þetta vekji forvitni þeirra líka. Kannski – ef einhver vill ekki sjá verk þeirra í samhengi við dans og „kóreografíu‟ ættu þau bara að fara og sjá þau eitthvað annað kvöld.

 

„Kóreografía‟ sem máti til að hugsa á gæti komið að gagni – eða kannski verið gagnslaus. Hvorugur möguleikinn er algjör hörmung. Við erum þrátt fyrir allt að spyrja spurninga ekki að varpa fram hugmyndafræði … þetta snýst fyrst og fremst um forvitni ekki fullvissu.

Við vonum. Við virkilega vonum, að enginn festi sig í spurningunni um hvort það sé nægur dans í verkum þeirra – eða verkum annarra á hátíðinni. Þetta er spurning um hvað hátíðin opnar fyrir, hvort eitthvað komi fram þegar verk eru sett í samhengi við dans eða „kóreógrafíu‟. Þessi spurning gildir um allt á hátíðinni ekki bara Kriðpleir.

Að þessu sögðu – við sjáum samt mikilvægi þess að tryggja stuðning okkar við þá listamenn á Íslandi sem vilja vinna í samhengi af „kóreografíu‟ og dans. Við höfum þrá til að bæta varanlega efnahag og sýnileika þeirra. Og kannski ætti það að vekja áhyggjur að við skyldum bjóða verkum á jaðar dansheimsins inn – ef það væri ekki svo mikið af dansi og danssköpun þessa fjóra daga. Sem betur fer höfum við nóg af því líka.

 

Innskot frá greinarhöfund:

Nú er búið að fylla upp í þann orðafjölda sem ég gaf mér að þetta viðtal ætti að verða. Engu að síður gæti verið margt á að græða að ganga á eftir stjórnendum hátíðarinnar líkt og rannsóknablaðamaður ætti að ítreka spurningar sínar við pólitíkus. Hvað er kóreografía gæti ég gargað í gegnum næsta tölvupóst og ítrekað svo óánægju mína með að fá ekki skýrt og afmarkað svar.

Sem íslenskur rithöfundur finn ég fyrir gremju gagnvart svona algerlega erlendu aðskotaorði inn í texta mínum, jafnvel þótt textinn sé þýðing á texta viðmælenda og ekki minn eigin. Ég hef ákveðið að reyna ekki fyrir mér með þýðingum á borð við „danshönnun‟ „danshöfundur‟ og „dansskrifum‟ heldur bara að lifa við takmörkum íslenskrar tungu í þessum efnum. Íslenskan er sértækt og gagnsætt mál, hún býður ekki upp á orð sem þýða allt og ekkert, aðallega af því við höfum markvisst hreinsað burt slettu-orð sem hafa óskýra merkingu. Við höfum auðvitað heldur engin orð eins og Performance, sem getur þýtt hér um bil hvað sem þú vilt að það þýði og þegar talað er um „theatre‟ verðurðu annað hvort að tala um leiklist eða leikhús. Þú getur ekki látið liggja með hluta hvers konar menningarstofnun, menningararfleifð eða listform þú ert að ræða. Að þessu leyti má segja að nútímalistahátíðir á borð við RDF bjóði upp á ferskar áskoranir handa þeim sem vill hugsa á íslenskri tungu og samt velta fyrir sér samtímadans.

Snæbjörn Brynjarsson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s