Ekki endilega þörf á dramatískri spennu

Philippe Quesne / Vivarium Studio, Paris „Swamp Club“ Idee/Regie/Ausstattung Philippe Quesne Künstlerische Mitarbeit Yvan Clédat, Cyril Gomez-Mathieu Kostüme Corine Petitpierre Assistenz Marie Urban Mit: Isabelle Angotti, Snæbjörn Brynjarsson, Ola Maciejewska, Émilien Tessier, Gaëtan Vourc’h und einem Streichquartett

Sviðslistamaðurinn og rithöfundurinn Snæbjörn Brynjarson lauk fyrir stuttu leikferð með leikhópnum Vivarium Studio. Kolbrún Björt Sigfúsdóttir spurði Snæbjörn um verkið Swamp Club og ferðalagið mikla.

 

Um hvað er Swamp Club?

Swamp Club mætti næstum segja að sé söngleikur eða dulbúnir tónleikar. Þegar leikstjórinn Philippe Quesne fékk hugmyndina að verkinu þá var grunnurinn sá að klassískur kvartett væri að spila Shostakovitch eða álíka tónskáld út í mýri eða fenjum. Síðar kom hugmynd um að staðurinn væri nokkurs konar listamiðstöð þar sem leikið væri með alls kyns klisjur úr nútíma og samtíma-list. Verkið var líka 10 ára afmælis verk Vivarium Studio þar sem tilvísanir í fyrri verk hópsins blönduðust inn í söguna.

 

Hvert er þitt hlutverk í verkinu? Hvernig kom það til?

Mitt hlutverk var að leika einn af gestum listamiðstöðvarinnar, þeas. sjálfan mig. Ég hafði verið í reglulegu sambandi við Philippe í gegnum tíðina, tekið þátt í gjörningum í gegnum skype t.d. og svo rakst ég merkilegt nokk á hann í Tokyo þar sem hann hélt fyrirlestur í háskólanum sem ég var skiptinemi í. Þá var hann að vinna að verki með japönskum leikkonum og fannst svo brilljant að hitta á Íslendinginn sem hafði verið honum innan handar þegar Vivarium kom til Íslands að hann stakk upp á að ég yrði með í næsta verki hópsins. Ég tók því svona mátulega alvarlega eins og öllu sem sagt er inn á krá klukkan þrjú um nótt í Shinjuku en viti menn, ári síðar hafði hann samband og vildi endilega fá mig til Parísar að leika. Svo ég gekk inn í listamiðstöðina Swamp Club sem íslenskur fantasíubókahöfundur með áhuga á japönskum skrímslum.

 

Hvað var helst eftirminnilegt úr leikferð ykkar?

Það er margt eftirminnilegt úr leikferðinni. Sér í lagi að leika á Avignon hátíðinni, hún er snarrugluð. Meðfram sjálfri hátíðinni er jaðar-hátíð, og hver einasti bílskúr, skúr eða íbúð virðist vera með einhvers konar stand-up eða söngleik, leikari með flyer stendur á hverju horni … þetta er í gamalli miðaldaborg með ótal klaustrum og haldið í Júlí í steikjandi hita. Það var líka mjög eftirminnilegt að leika í Pétursborg, allt öðruvísi viðtökur þar heldur en annars staðar. Rússarnir tóku okkur mjög alvarlega og maður fékk djúphugular spurningar um leikstíl og fagurfræði.

 

Það var líka mjög eftirminnilegt að leika í Zurich á fjölskylduhátíð. Leikhúsið var alveg við vatn og maður gat skellt sér í sundsprett fyrir og eftir sýningu. Ég man líka eftir hvað þýskumælandi Svisslendingar gátu verið miklir dónar við þá sem þeir að ósekju telja vera frönskumælandi Svisslendinga. Einhver búaði þegar við opnuðum verkið á beiðni á frönsku um að slökkva á farsímum án þess að fylgja eftir með sömu beiðni á þýsku, en það var ekki meint sem móðgun.

 

Almennt held ég að okkur hafi best verið tekið í Þýskalandi, Vivarium Studio er meira umdeilt í heimalandi sínu, en stjarna Philippes hefur verið mjög rísandi sérstaklega eftir að hann tók við stórri leikhússtjórastöðu.

 

Hverjir eru kostir þess að hafa performera af mismunandi þjóðernum í hópi eins og þessum?

Því fylgja ýmsir kostir að hafa mismunandi þjóðerni innan spunaverks. Sérstaklega ef maður vill sleppa að hafa texta undir. Þá gat pólski dansarinn séð um að tala meira í Poznan, ég fékk að leika meira þegar sýningin var á ensku osfrv. Yfirleitt er textinn ekki í fyrirrúmi hjá Philippe Quesne, að einhverju leiti felst afbygging og höfnun á tungumáli í því að láta íslenskan höfund standa á sviði í Vínarborg og tjá sig á japönsku, það er svolítið verið að gefa skít í tungumálið þar.

 

Hvert er ‘ethos’ Vivarium Studio?

Ethos, hmmm… Það er klárlega ákveðin fagurfræði. Það eru engin átök á sviði, viðbrögð við öllum tillögum eru jákvæð, leikhópurinn er í harmoníu, við spyrjum spurninga um það sem við sjáum á sviði, kinkum kolli kurteisislega, hlustum og dáumst að. Nafnið Vivarium er ákveðin vísbending um hugmyndafræðina, Philippe átti lítið glerbúr með maurabúi þegar hann var lítill og sér okkur leikarana sennilega fyrir sér á svipaðan máta. Við röltum fram og til baka með ýmis konar aktívítet, með þykkan fjórða vegg, í raun gegnsæju glerbúri með alls kyns plöntum (gerviplöntum).

 

Náttúran er alltaf til staðar, en hún er gervileg, plönturnar eru plast sem við færum fram og til baka, stillum upp, það er viss sögn í því, maðurinn og náttúran sem hann stýrir og færir til, en í öllum verkum Philippe má finna undirliggjandi ekólógísk skilaboð. Swamp Club endar á nokkurs konar náttúruhörmungum sem ekki er auðvelt að segja til hvaðan koma, en þau endurspegla þær áhyggjur sem við höfum í dag. En það er erfitt að segja, það eru engin sterk pólitísk skilaboð, verkin ganga út á andrúmsloftið frekar en skilaboðin.

 

Hafa Vivarium Studio breytt því hvernig þú sérð leiklist?

Já, t.d. sé ég ekki endilega þörf á dramatískri spennu lengur. Í leikriti þarf fólk ekki stöðugt að rífast til að við höfum áhuga, það er eitthvað annað sem vekur áhuga okkar á manneskjum heldur en bara mótstaða við markmið. Þetta fer þvert á það sem allar script-writing bækur sem ég hef lesið og kúrsar sem ég hef tekið. Þarf McGuffin? Eða er McGuffin kannski víða? Stundum eru hlutir bara athyglisverðir. En það er ekki þar með sagt að ég hafni allri dramatík, ég bara hef áttað mig á að hún er ekki upphaf og endir alls. Fólk sem er að tjilla getur líka verið athyglisvert. Á tímabili í sýningunni förum við öll út í sólbað og hlustum á tónlist. Samt virðist engum leiðast að horfa á. Ég held að sömu lexíu megi draga inn í skrif.

 

Hvað er næst? Fyrir þig og fyrir hópinn?

Næsta skref fyrir mig er að sýna verk á Lókal eftir mig og Ragnheiði Bjarnarson konu mína. Þetta er danshópurinn Rebel Rebel með verkið A series of novels never written. Ég held eitthvað áfram með Vivarium, er að flytja til Parísar í haust og túra með öðru eldra verki sem nefnist Melankólía drekana. Hvort ég verði í öðrum verkum Philippes á bara eftir að koma í ljós, hann er núna að gera margt í einu, hanna sviðsmyndir fyrir óperur og ýmislegt sem krefst ekki notkun á gamla leikhópnum hans en það getur verið að hann noti mig eitthvað áfram, hvort sem það er fyrir endurupptöku á gömlum verkum eða einhverju nýju. Svo hef ég líka fantasíubókaröð sem ég hef verið að skrifa með Kjartan Yngva Björnssyni, sem við þyrftum að klára einhvern tímann bráðlega.

REBEL REBEL: A Series of Novels Never Written verður sýnt á Lókal 29a ágúst klukkan 18.00 í Skugga.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s