Firsts – verk upprennandi sviðslistamanna á Lókal/RDF

 

Á sviðslistahátíðunum Lókal og RDF í ár voru prógrammeruð þrjú verk eftir upprennandi sviðshöfunda undir yfirskriftinni “Firsts” sem sýnd voru í nemendaleikhúsi Listaháskólans við Sölvhólsgötu. Anna Kolfinna Kuran sýndi verkið “Bríet” í góðum félagskap Estherar Talíu Casey, Gígju Jónsdóttur og Lovísu Óskar Gunnarsdóttur; Björn Leó Brynjarsson stýrði Kolbeini Arnbjörnssyni í verkinu “FRAMI”; og Gígja Jónsdóttir og Guðrún Selma Sigurjónsdóttir kynntu okkur fyrir “Drop Dead Diet”-lífsstílnum ásamt Loga Höskuldssyni. Ég trúi því að Firsts sé mjög mikilvæg sería og henni ætti að halda í framtíðarútgáfum hátíðanna. Ágústútgáfa Lókal og RDF er sér á báti í samfélagi sjálfstæðu senunnar, vettvangur fyrir alþjóðlega kollega til að koma saman í persónu, sjá, sýna og ræða um list. Því eru svona samkomur dýrmætar og ég vona að með stuðningi hátíðanna og Tjarnarbíós (þar sem verkin eru sýnd eftir hátíðarnar) fái unga listafólkið gott brautargengi.

ddd

Fyrst sá ég Drop Dead Diet, öflugt dansleikhúsverk sem fjallar um líkamsvitund, sjálfsmyndina, trú okkar á skyndilausnir og hvernig þessi eltingarleikur við fyrirmyndarlíkamann getur leitt okkur í ógöngur. Þetta er umræða sem á alltaf rétt á sér en verkið fannst mér vera jafnmikið um þennan ímyndarheim samtímans þar sem viðmótið skiptir öllu máli. Við búum í heimi þar sem þú hefur val en valið stendur á milli sama hlutarins í mismunandi umbúðum, svo velur þú umbúðirnar sem passa við þá ímynd sem þú ert að býrð þér til. Þú ferð ekki með Latabæjarvatn í ræktina heldur Eðal-Topp þó þetta sé sama kranavatnið með sömu bragðefnunum. En að öðru, sviðshönnunin var mjög töff og vel unnin, klínískir hvítir fletir sem skiptu litum eftir stemmningu með sniðugri lýsingu. Tónlistin var líka fáránlega næs og undirstrikaði vel þennan tilbúna heim sem er svo grunnhygginn og heimskulegur að þar trúir fólk því að lífsfyllingin sé innan í kleinuhring. Ég verð reyndar að segja að ég hef átt ótrúlega góð móment með berlínarbollu í munni en ég tel mig skilja ádeiluna. Hér er hvatinn að því að uppfylla staðla (sem ekki verður náð, sem kannski er ekki hægt að ná) svo sterkur að fólk fórnar rökhyggjunni fyrir hvað svo sem það telur færa sig nær markmiðinu. Sem danshöfundar sýndu Gígja og Guðrún mikinn sköpunarkraft og voru þónokkrir kaflar sem gripu mig, sérstaklega eftirminnilegur var dúet þar sem dansararnir ferðuðust saman um gólfið í taktföstu brölti og rútína þar sem eingöngu andlitið kom við sögu. Bygging verksins var hrein og skiljanleg en á köflum hefði ég viljað eyða lengri tíma með þeim og sjá þær reyna enn frekar að brjóta niður þetta illkynja umhverfi sem villir um fyrir okkur.

AR-150909337

Næst var það Bríet, óður til Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, kvenréttindakonu sem einnig er langamma danshöfundarins, Önnu Kolfinnu Kuran. Verkið er umhugsunarvert dansleikhús þar sem svipmyndum af lífi Bríetar er brugðið upp í ýmsum miðlum og rýnt í stöðu konunnar þá og nú. Við fyrstu sýn er verkið raunsögulegt endurlit til aldamótanna og endurspeglast það í allri umgjörð en inntak verksins og vönduð nálgun gera það að verkum að stykkið nær bæði að vera ævisöguleikhús um manneskju frá þarsíðustu aldamótum og leikhús með tengingu í samtímann. Að mér vitandi er þetta fyrsta verkið um hana Bríeti og það var tími til kominn að einhver heiðraði minningu þessarar merku konu. Það er í raun frekar klikkað að hugsa til þess að það sé bara öld síðan konur fengu kosningarétt, mér fannst það vera langur tími þangað til ég áttaði mig á að við erum að verða búin með 15% af þessari öld. En aldarafmæli kosningaréttarins hentar vel til þess að draga upp nokkrar myndir af baráttukonunni sjálfri og minn skilningur á verkinu var á þann veg að hér væri Anna Kolfinna að spegla sig í arfleifð ömmu sinnar, flytja hennar orð, rýna í hennar hugsjónir og skoða hvaða hindranir voru í vegi hennar og hverjar eru enn í vegi kvenna. Áhrifarík sena, sem tengist umræðu vorra daga með beinum hætti, var þegar að einn flytjendanna hafði farið í hlutverk karlmanns en gat ekki skipt um föt án þess að hylja kvenmannsgeirvörturnar. Auðvitað leiddi maður hugann að #freethenipple en að sama skapi leiddi maður hugann að því hvað Bríet hefði sagt um átakið og hugmyndafræðina. Kannski hefði henni blöskrað en það er vegna þess að hún væri 160 ára og ungar konur í dag ættu að skilgreina sína baráttu útfrá eigin tímum. En kannski hefði henni ekkert blöskrað, kannski hefði hún bara tvítað “Fokk feðraveldið! #FreeTheNipple #OlderWomenVoices” og rifið sig úr að ofan.

FRAMI-PLAKAT3 copy

Síðast en ekki síst var það einleikurinn FRAMI, sviðsverk unnið eftir handriti Björns Leós Brynjarssonar með Kolbeini Arnbjörnssyni í hlutverki ungs listamanns sem upplifir sjálfan sig sem harmræna hetju í hugmyndafræðilegri baráttu við samtímann. Hann hefur fengið sig fullsaddan af innihaldsleysi nútímans og getuleysi listheimsins til að takast á við alvöru vandamál en er sjálfur upptekinn af frekar smávægilegum vandamálum. Verkið dansar á mörkum draums og veruleika þar sem erfitt er að greina fantasíu frá endurminningum (eru þær ekki oft sveipaðar fantasíu), en verkið dansar líka á mörkum leikhúss og raunveruleika þar sem maður hefur það lúmskt á tilfinningunni að hann sé að tala um einhvern ákveðinn listamann í lifanda lífi. Verkið er allavega ádeila höfundar á ákveðna stefnu í íslenskri myndlist og hvort sem hún á rétt á sér eða ekki þá var hún skörp hvað varðar textann. Textinn náði að fanga tilfinningar eins og öfundsýki, óöryggi og löngun eftir samþykki sem getur verið drífandi afl þegar einstaklingur er fastur í samanburði og samkeppni við aðra sem starfa innan sömu listasenu. Virkilega vel skrifað verk sem heldur manni fram að lokum þar sem við fáum að sjá hvað var raunverulega í húfi – viðurkenning. Þá varð allt svo smáborgaralegt og við fórum beint inn í kvikuna. Inn í barnslega mannlegt eðli sem sýnir að listamenn verða að læra að bera ábyrgð á að bjóða sjálfan sig velkominn inn í samfélag listamanna. En um leið hvarf í reynd ádeilan því það sem virtist vera raunverulegur mótþrói listamannsins og von eftir breytingum reyndist aðeins vera athyglis- og öfundsýki. Stór hluti verksins var leikmynd Daníels Þorsteinssonar, svakalegt þrívíddarmyndverk sem varpað var aftan við leikarann og breyttist eftir því hvar maður var staddur í hugarheimi þjáða listamannsins. Leikmyndin studdi fullkomlega við línudans höfundar og ýtti undir hughrif og gaf sterk skilaboð án orða.

Yfir heildina var þetta sterk sería og fjölbreytt verk. Hátíðarnar hafa stutt við grasrótina og RDF oft sinnt þeim verkum sem eiga sér stað í öðru samhengi en á sviðinu en þarna mátti sjá efnilega sviðshöfunda með mikið til málanna að leggja og það var frábært að fá þau á hátíðina.

-Sigurður Arent Jónson/Andrea Vilhjálmsdóttir

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s