Leikár Borgarleikhússins

H3-140119435

Kristín Eysteinsdóttir hefur setið í stóli Borgarleikhússtjóra dálítið lengur en Ari og hefur fengið aðeins betri tíma til að finna sig í starfi og meta hvert hún skuli stefna með Leikfélag Reykjavíkur. Eftir að hafa stýrt Borgarleikhúsinu í gegnum leikár sem hafði að mestu verið ákveðið fyrir fram þá er komið að henni að setja í gang sína eigin sýn. Síðasta ár var vissulega fjölbreytt og að mörgu leyti margt fagmannlega gert þá einkenndist það að miklu leyti af kassastykkjum, jafnvel fleirum en þegar mest lét undir stjórn Magnúsar Geirs. Enda sést það á því að margar sýningar eru að koma aftur á fjalirnar og taka mikið pláss nú að hausti. Má þar nefna Línu Langsokk, Billy Elliott, Kenneth Mána og Dúkkuheimili. Það er þó ekki hægt að segja að sýningar þessa leikárs séu til þess hugsaðar að fá fé í kassann. Í raun er bara ein frumsýning sem hægt sé með góðu móti segja að sé kassastykki og það er Mamma Mia!, Abba söngleikurinn. Ég verð að segja að ég á erfitt með að sjá hvaða erindi Mamma mia! á til Íslands en hann á eflaust eftir að slá jafn hressilega í gegn og Billy Elliott, og Mary Poppins þar áður. Það er þó eitt sem er gott við uppsetningar á þessum stórsöngleikjum (allavega fyrir þurrprumpulegan listatrefil eins og mig) að það er sem Kristín leyfi sér að taka ákveðnar áhættur þar á móti.

f3da887eaec82c01c97a3af0d6c76c2f

Í viðtali sínu við Reykvélina um síðustu jól er greinilegt að Kristín er með háleitar hugmyndir hvað varðar Borgarleikhúsið og listræna stefnu þess. Hún talar um að opna leikhúsið betur út í borgina, kallar eftir hugrekki í nálgun á viðfangsefni í stað þess natúralisma sem rík áhersla verið verið lögð á, og svo vill hún “fá hingað inn spennandi leikstjóra og leiklistarfólk sem er búið að þróa sín listrænu einkenni og fagurfræði og tungumál sem sýna okkur þessar sögur sem við viljum segja í nýju ljósi”. Það eru reyndar engin verk á dagskránni sem jafnast á við hina óvenjulegu Flækjur sem Kviss Búmm Bang setti upp á síðasta ári, en þó eru teknar listrænar ákvarðanir sem eru vissulega áhugaverðar. Til dæmis sækir hún mikið af leikstjórum sem hafa vakið athygli erlendis. Mávurinn er náttúrulega klassík en verkinu er leikstýrt af ungum litháískum leikstjóra, Yana Ross sem hefur vakið athygli fyrir sýningar sínar í Evrópu. Verkið er staðfært til Íslands í dag og það virðist vera tekin fersk nálgun á það, en við spyrjum að sjálfsögðu að leikslokum. Það gæti líka orðið annað Ofviðri…Þorleifur Örn Arnarson, sem hefur unnið aðallega í Þjóðleikhúsinu hingað til og einnig mikið í hinu þýsku mælandi leikhúsi, flytur sig upp í Kringlu og hyggst setja á svið leikgerð sína og Mikaels Torfasonar á Njálu. Þar tekur hann saman höndum með Ernu Ómarsdóttur, einum mest spennandi danshöfundi Íslands, og verður að segjast að þetta hljómar eins og einstaklega spennandi samstarf. Njála er auðvitað bók eða saga sem er einstaklega ögrandi að setja á svið og ég held að þau séu rétta fólkið til að taka snúning á því þema. Svo snýr Grímu verðlaunahafinn með langa nafnið, Egill Heiðar Anton Pálsson, aftur heim frá Berlín þar sem hann kennir við einn virtasta leiklistarskóla Evrópu (Hocshule für Schauspielkunst – Ernst Busch) og tekur snúning á Hver er hræddur við Virginia Woolf? Egill var lengi olnbogabarn í íslensku leikhúsi, sýningar hans í Þjóðleikhúsinu á Rambó 7 og Sumardegi vöktu ekki mikla athygli og fengu að mestu vonda gagnrýni (persónulega fannst mér þær báðar feykigóðar) en eftir að Ragnheiður Skúladóttir vélaði hann til Akureyrar til að vinna hjá Leikfélaginu hefur hann hlotið 2 Grímutilnefningar og hreppti hnossið fyrir Gullna Hliðið. Ég tek það fram að ég er vissulega hlutdrægur þar sem ég tók þátt í báðum sýningum Egils á Akureyri en fyrir mitt leyti verð ég að segja að það er leitun á betri íslenskum leikstjóra og hlakka ég mikið til að sjá hvaða tökum hann tekur þetta klassíka verk. Það virðist því stefna Kristínar að ef á að setja klassík á svið þá sé reynt að fara ekki hefðbundnustu leiðina að því, sem er einmitt það sem þarf. Við þekkjum klassíkina og viljum sjá nýjar hliðar á henni, ekki gömlu tuggurnar. Þannig að þessum áherslum tek ég fagnandi.

vw

Talsvert er af nýsköpun einnig, enda er það eitthvað sem Kristín leggur mikla áherslu í viðtali sínu við Reykvélina. Hún segir þar “Í þeirri listrænu stefnumótum sem við erum í núna langar okkur leggja meiri áherslu á frumsköpun, og þá í öllum skilningi, bæði hvað varðar íslenska leikritun og einnig í þessa frumsköpun frá grunni þar sem listamenn byrja með rannsóknarspurningu”. Nýtt verk er á boðstólunum frá Tyrfingi Tyrfingssyni sem nefnist Auglýsing Ársins, en Tyrfingur er einn mest spennandi leiksskáld sem Ísland hefur alið á undanförnum árum og virðist sem þetta nýja verk gefi engan afslátt á þeirri naflaskoðun þjóðarsálarinnar sem Tyrfingur hefur staðið fyrir í undanförnum verkum sínum.. Það vekur einnig áhuga minn að Bergur Þór Ingólfsson skuli leikstýra því verki, eftir að hafa stýrt þeim risastykkjum í höfn sem Mary Poppins og Billy Elliott voru þá verður spennandi að sjá hann takast á við sýningu sem er ekki á jafn absúrd stórum skala og þau kassastykki. Bergur er einnig við stjórnvölin, ásamt hinum ástsæla trúðaleikstjóra Rafael Bianciotto, á trúðasýningunni Sókrates. Trúðurinn hefur oft verið áberandi í dagskrá Borgarleikhússins og hafa t.d. sýningarnar Jesús litli og sérstaklega Dauðasyndirnar verið með skemmtilegri leikhúsupplifunum undanfarinna ára. Hér er leikstjóri Dauðasyndanna, Rafael kominn aftur og þó að yrkisefnið, Sókrates, sé kannski ekki eitthvað sem maður tengir strax við trúðsleik þá er ekki hægt að segja annað en það kitli óneitanlega að sjá hvert trúðarnir fara með það. Ekki skemmir að handritið eða leiktextinn er unninn af þáttakendum í verkinu (Bergi og Kristjönu Stefáns), hann er frumskapaður í ferlinu sem gerir uppfærsluna ofsalega spennandi. Svo er heimildaleikverkið Flóð eftir Hrafnhildi Hagalín og Björn Thors eitthvað sem vert er að taka eftir en það er unnið upp úr viðtölum við Flateyringa um snjóflóðið á Flateyri 1995. Viðkvæmt efni en gríðarlega áhugavert og fróðlegt að sjá hvernig úrvinnslan verður úr þessu. Þá er aðeins ógetið Vegbúans, einleiks KK þar sem segir sögu gítaranna sinna, og Ats, nýs bresks leikverks eftir Mike Bartlett í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur. KK sýningin er örugglega krúttleg og skemmtileg, kannski ekki beint spennandi leikhúsviðburður en KK er náttúrulega ótrúlega sjarmerandi maður og á eftir að trekkja að. Borgarleikhúsið hefur verið duglegt að sýna ný verk frá Bretland undanfarin ár og verður að segjast að það hefur heppnast misjafnlega. Í raun er þessi uppfærsla óskrifað blað fyrir mér, Bartlett er leikskáld í sókn í Englandi en á móti kemur að bresk leikritunarhefð er frekar föst í forminu og verk Bartletts, Jarðskjálftar í London, sem Nemendaleikhúsið setti upp fyrir stuttu, þótti mér ekki mikið til koma. En leikhópurinn er ungur og spennandi og Kristínu hefur oft tekist ágætlega til við sviðsetningar nýrra leikverka.

Í raun er leikár Borgarleikhússins mjög spennandi og fjölbreytt. Verkefnin eru fjölbreytt og listrænir aðstandendur ólíkir. Þó hægt sé að agnúast út í enn einn risasöngleikinn þá hafa þeir nú verið fagmannlega unnir og tvímælalaust skilað peningum í kassann fyrir leikhúsið en þau eru með mjög mikla kröfu um sjálfsaflafé (65%). Hún tekur hugrakkar ákvarðanir og virðist að mestu leyti trú sjálfri sér. Hún talar um í viðtalinu við Reykvélina að hlutverk leikhússins sé ekki “bara að uppfylla fyrirfram gefnar væntingar þínar um eitthvað. Og þá þarf maður líka að þora að taka áhættur og þora fram á bjargbrúnina.“ Þó að erfitt sé að segja að leikárið 2015-2016 stígi út á bjargbrúnina þá er allavega teknar listrænar ákvarðanir sem eru ekki sjálfsagðar og ákveðin stefna tekin sem lítur allavega frekar spennandi út á pappír. Tíminn verður síðan að leiða í ljós hvernig til tekst.

-Hannes Óli Ágústsson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s