Leikár Leikfélags Akureyrar

fr_20130731_004761

Það eru nýir tímar hjá Leikfélagi Akureyrar þetta árið. Leikfélagið er gengið inn í Menningarfélag Akureyrar og er þannig í samfloti með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Hofi. Einnig er þetta fyrsta leikárið sem Jón Páll Eyjólfsson skipuleggur fyrir hönd Leikfélagsins og er áhugavert að skoða þær áherslur sem hann leggur á verkefnaval.

Í fyrsta lagi má nefna að leikárið er alíslenskt sem vekur athygli, sérstaklega þar sem ekki hefur verið látið mikið með það opinberlega miðað við t.d. Íslenska veturinn hjá Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári. Leikárið spannar ágætan skala; nýr íslenskur gamanleikur með Sögu Garðars og Dóra DNA, jólaverk um Grýlu, leikgerð á Býr Íslendingur hér?, trúðleikur um Helga Magra og nýr barnasöngleikur unninn upp úr Pílu Pínu, bók og plötu sem allavega mín kynslóð elskaði sem börn, en það verk er í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

jpemynd-15488

Vissulega er pínu crowd-pleaser bragur á þessari uppstillingu, enda veit ég af reynslu að það er kallað mikið eftir slíku norðan heiða. Jón Páll er að bregðast við þeim kröfum á mjög skynsamlegan hátt, eðli verkefnanna höfðar til fjöldans en það er reynt að taka smá snúning á þeim kröfum. Jón Páll segir í viðtali sínu við Reykvélinu síðustu jól: “Svo er það þessi hugmynd um aðgengilegt og alþýðlegt sem er líka sterk í mínum huga. Þannig að ég hef engan áhuga á að tala á áhorfendur eða yfir þeim, ég vil tala við þá og um það sem þeim þykir mikilvægt en líka um það sem að þarf að ræða”. Að einhverju leyti virðist þessi stefna vera til staðar. Þetta er grín, án djóks, sýning Sögu og Dóra, spyr margra skemmtilegra spurninga (allavega samkvæmt kynningarefninu) en virðist þó vera sett fram sem gamanleikur sem fólk ætti að geta flykkt sér á. Býr Íslendingur hér?, byggt á minningum Leifs Muller úr fangabúðum nasista, er erfitt viðfangsefni og spennandi að sjá hvernig tekist verði á við það, en það er líka þekkt saga sem almenningur þekkir til. Píla Pína er einnig þekkt saga og þó börnin þekki hana kannski ekki eins vel og foreldrarnir þá eru það nú foreldrarnir sem kaupa miðanna og munu eflaust gera það. Helgi magri, sýning þar sem nokkrir trúðar reyna að setja á svið eitt að verstu leikritum íslenskrar leiklistarsögu, er líklegast mesta ólíkindatólið í efnisskránni en ég held að trúðleikir séu einfaldlega svo mikið í tísku þessa daganna að það trekkir eflaust mikið að.

En þá er ég kominn að því sem ég set aðeins spurningamerki við hjá leikári LA. Það er allt frekar seif, það eru ekki teknar miklar áhættur og það er einnig erfitt að sjá stefnu Leikfélagsins. Jú, þetta er allt íslenskt, sem er gott og blessað en gaman væri að sjá Leikfélagið taka allavega eitt verkefni sem ögraði pínu eða væri aðeins utan við rammann. Það er líka greinilegt að ekki er mikil fjölbreytni í vali af lístrænum stjórnendum, Jón Páll leikstýrir 2 sýningum og leikur í einni. Gunnar Gunnsteinsson, framkvæmdastjóri Menningarfélagsins, leikstýrir einni sýningu og skrifar. Í raun er Píla Pína eina sýningin sem hefur leikstjóra sem ekki er starfsmaður MAK. Mig grunar reyndar að þetta stafi af fjárskorti frekar en listrænu vali, eins og alþjóð veit hefur Leikfélaginu verið sniðinn þröngur stakkur undanfarin ár og það er ekki annað hægt en að vona að þessar sýningar slái í gegn svo að mögulega sé hægt að taka meiri áhættur á næstu árum. Ég veit að Jón Páll er viljugur til þess, hann segir í viðtali sínu við Reykvélina: “ég hef draum um Akureyri og menningarlífið þar. Draumurinn þarf að vera til staðar og löngunin til að byggja, bæta, stækka, víkka.” Þetta ár er auðvitað bara fyrsta ár hans í uppbyggingunni og verður áhugavert að sjá framhaldið.

islendingur_mak_230x3251777-149x211

Svo verður áhugavert að sjá hvernig gangi að framleiða sýningar inn í Hof, sviðið þar er nefnilega ekki mjög hentugt fyrir leikverk (að mínu mati) á meðan Samkomuhúsið er eitt af bestu leiksviðum landsins. Það er þó aldrei að vita hvernig það gengur með Hof og hægt sé að vinna með það sem leikrými en sem aðdáandi Samkomuhússins þá vil ég helst sjá það sem hið raunverulega heimili leikfélagsins. 

Ég vil að lokum benda á það að ekki stærra leikfélag en LA er með 2 leiksýningar á leikárinu ætlaðar börnum og er það þeim til mikils hróss. Sem sagt, margt skemmtilegt á boðstólunum og gott að vera með áherslu á íslenskt, það er þó eins og það vanti smá chili í uppskriftina. En Jón Páll er nú bara nýbyrjaður að smakka hana til. 

Að endingu vil ég bara segja að þetta er að sjálfsögðu bara skoðun eins manns sem hefur ákveðna sýn á leikhúsið. Ég er auðvitað massahlutdrægur, hef unnið við öll þessi leikhús á einn eða annan máta og ber því að taka öllu með fyrirvara. Það er líka auðvitað pínu asnalegt að dæma leikár og leiksýningar út frá auglýsingum, bæklingum og eigin fordómum. Það sem virðist vera spennandi gæti reynst grútleiðinlegt og sýning sem maður hefur fordóma fyrir gæti hæglega hrifið mann með sér. Þetta er pínu eins og að tippa í getraunum: það er hægt að gefa sér ýmislegt út frá fyrirframgefnum forsendum en á endanum þá getur allt gerst og maður verður að spyrja að leikslokum. Ég hlakka bara til að koma og njóta.

-Hannes Óli Ágústsson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s