Markar nýtt upphaf – Viðtal við Ragnheiði Bjarnarson, danshöfund

Ragnheidur

Í kjölfar frumsýningar A series of novels never written spurði Kolbrún Björt Sigfúsdóttir Ragnheiði Bjarnarson út í verkið, hvernig það er að vinna með maka sínum og hvort A series of novels… kallist á við hennar fyrri verk. 

Um hvað fjallar A series of novels never written?

Verkið fjallar um þýðingar. Er hægt að þýða listaverk yfir á annað listrænt tungumál? Er hægt að þýða bók yfir í dans, rétt eins og þýða frá ensku yfir á íslensku. A series of novels never written fjallar um listamann, rithöfund, sem langar til að finna einlægari leið til að tjá sig. Hann telur dansinn vera upphaf listrænnar tjáningar mannsins og laus við alla lygi og kaldhæðni. Í gegnum verkið þýðir listamðurinn sjö ókláraðar skáldsögur sem hann skrifaði á aldrinum 12 – 29 yfir á tungumál hreyfingarinnar, dans. Honum gengur misvel að þýða þær en á sama tíma er hann í baráttu við eigið listamanns sjálf og hvernig hægt er að koma frá sér hugmyndum án þess að gagnrýna áhorfendur.

Hvaðan kom hugmyndin að verkinu?

Hugmyndin hefur verið lengi í smíðum. Ég og Snæbjörn (leikandinn á sviði) erum gift og höfum búið saman nokkuð lengi. Hugmyndin um að við myndum gera verk saman þar sem hann myndi dansa er í raun búin að vera með okkur um nokkuð skeið og kannski meira í gríni. Snæbjörn er alltaf að búa til lítil dansverk í eldhúsinu, stutta dansgjörninga með kaldhæðnisleg nöfn. Það er ekki fyrr en fyrir sirka ári að við fórum að íhuga samstarf, þar sem við erum bæði listamenn að fást við sviðið sem miðil á einn eða annan hátt.

series of novels

Hvernig er að vinna með maka þínum?

Mér finnst það skemmtilegt á svo marga máta. Snæbjörn þekkir mig alveg út og inn, veit hvernig manneskja ég er, þekkir mínar skoðanir og veit hverjir mínir listrænir eiginleikar eru, bæðir sterkir og veikir. Og ég þekki hann ekki síður. Þetta gerir samstarfið enn flóknara og dýpra þar sem á stuttum tíma er hægt að fara yfir gríðamikið efni af hugmyndum og þó að vandræði koma upp eru þau fljót að leysast þar sem við þekkjum inn á hvort annað.

Margir segja að það sé hrikalegt að vinna með maka sínum þar sem þið væruð saman allan daginn bæði í vinnu og heima. En staðreyndin er sú að þannig höfum við Snæbjörn eiginlega alltaf verið. Við vinnum bæði við okkar list og sú vinna er oftar en ekki mikið heima fyrir framan tölvuskjáinn. Heilu vikurnar sitjum við við sama borð og vinnum, hann að bók og ég að video verki, þannig að vinna saman að sviðsverki er í raun ekki svo frábrugðið. Það er skemmtilegt að vera úti á gólfi í stöðugu samtali um verkið og listina í stað þess að glápa einbeitt á sinn hvorn skjáinn. En hitt mætti líka kalla samstarf, það felst ákveðinn stuðningur í að sitja saman í þögn og vinna að verkum sínum sitt í hvoru lagi.

Geta allir dansað eða er það eitthvað sérstakt við Snæbjörn sem gerir hann að dansara?

Eins og ég segi í verkinu sjálfu “Everybody can dance” (allir líkamar geta dansað) og ég virkilega meina það. Allir geta dansað og við öll höfum okkar persónulega dansstíl, alveg eins og við getum öll teiknað og höfum okkar einkennandi teiknistíl, hvort sem listamannaelítan álítur það list eða ekki. Persónulega finnst mér Snæbjörn með svo skemmtilegan dansstíl að mér fannst það vert að setja á svið. Hreyfingarnar sem hann gerir eru mér svo flóknar að eftir minn 20 ára dansferil get ég ómögulega framkvæmt þær. Ég hef verið að móta mitt danstungumál í 20 ár í gegnum mismunandi hreyfistíla en Snæbjörn er ómótaður og ekki fastur innan þess tungumáls sem dansarar eru mótaðir í. Það eitt finnst mér áhugavert. En það sem gerir dansstíl Snæbjarnar merkilegan eru fínhreyfingarnar og smáatriðin sem líkist frekar indverskum eða japönskum dansstíl en evrópskum.

Hvaða merkingu hefur það að hafa tekið þátt í RDF/Lókal fyrir ykkur?

Það er fyrst og fremst tækifæri. RDF og Lókal eru með góðan áhorfendahóp, innlendan og erlendan, og þegar maður sýnir á hátíð er samtalið milli listamanna og áhorfenda einhvern veginn tekið alvarlegar. Kannski hátíðlegra. Við erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið að sýna á hátíðunum, það er auðvitað þægilegra en að gera allt sjálfur, en líka skemmtilegra, sérstaklega ef maður hefur tíma til að sjá sýningar annarra og taka þátt í öðrum viðburðum.

Er verkið rökrétt framhald af fyrri verkum þínum sem sviðslistakona og þá hvernig/ hvernig ekki?

Já og nei.

Í nokkur ár hef ég verið upptekin af hinni fullkomnu konu og hennar ásýnd en ég held að það verkefni hafi náð hápunkti þegar ég lauk mastersverkefninu mínu vorið 2014. Þó að líkamsvitund muni alltaf eiga einhvern hlut í mínum verkefnum, vegna fyrri reynslu og mikilla komplexa, þá er hugmyndaflæðið farið í aðra átt. Í þessu verki er það Snæbjörn sem er aðalpunkturinn, en ég hef ávallt notað minn eigin líkama í mínum verkum. Hér er hann að uppgötva sína líkamsvitund og hverfa frá hinu þeinkandi ritlistarformi yfir í meiri líkamlegt form dansins, þó þessi skilgreining sé náttúrulga hrein og bein míta.

mount fuji

Í meistaranámi þínu í Gautaborg lagðir þú áherslu á líkamsvitund og ‘performance art’, hvers vegna?

Þetta er ein mesta klisja allra tíma en eitt sinn sagði listakona við mig að sú list sem við búum til er okkar upplifun og túlkun á okkar lífi eins og það mótast af samfélaginu. Ég fór í gegnum unglingárin með mikla líkamskomplexa og þó ég sé ekki að kenna dansinum um þá ýtti hann verulega undir það óöryggi sem ég átti við sjálfa mig. Á þessum árum stóð ég fyrir framan spegil alla virka daga og dansaði ásamt hópi af öðrum stelpum. Ég dansaði því mér fannst það gaman en fjórtán ára ákvað ég að verða dansari og þá hófst alvarleikinn fyrir fullt. Ég prufaði hinar ýmsu aðferðir við að breyta þeim líkama sem ég fæddist með og til að höndla það að standa fyrir framan spegilinn bjó ég mér til ímyndaðan líkama sem ég svo setti á þá spegilmynd sem ég horfði á alla daga. Ég ýki ekki þegar ég segi að allar konur í vestrænu samfélagi (ef ekki öllum samfélögum) ala upp einhverskonar líkamskomplexa á unglingsárunum. Það er auðvitað ekki eðlilegt að bera saman venjulega líkama við þá óraunverulegu mynd af kvenlíkamanum sem okkur er sýnd alla daga frá hinum ýmsu miðlum.

Á þeim tíma sem ég sótti um þetta mastersnám í Artistic Research and Performance in Public Space var ég á tímamótum. Ég var að hætta að hugsa um sjálfa mig sem dansara (en ég hafði meiðst illa nokkrum árum fyrr) og sjá mig meira sem listamann sem vinnur með hreyfingar og innsetningar, hvort sem það er í galleríi, almenningsrými eða á sviði. Einnig langaði mig að binda saman þær hugmyndir sem hafa einkennt verkin mín um hina fullkomnu konu og fara í djúpa rannsókn á því efni.

Hvernig spilar þetta verk þar inn?

A series of novels never written er ekki beint tengt því sem ég gerði í mínu masters námi. Verkið markar nýtt upphaf þar sem ég er búin að reyna að flýja sviðið í nokkur ár en í dag finnst mér það áhugaverðasta listræna rýmið. Nánd listamannsins við áhorfendur á meðan flutningur fer fram og sú athygli og einbeitni sem áhorfendur þurfa að gefa af sér er mér einstaklega áhugaverð. Ekkert annað listrænt rými hefur þessa eiginleika að bæði áhorfendur og listamaður þurfa að standa sig í sýnu hlutverki og deila upplifun saman. Einstakt.

Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

Ég er nýflutt til Parísar svo helst á dagskrá er að læra tungumálið, aðlagast samfélaginu, kynnast borginni og listasenunni hér. Ég er að vinna í eftirfylgni á þremur verkum, A series of novels never written, Illusional Unicorns, innsetning sem ég setti upp í Búkharest síðast liðið vor og So Sweet it Hurts, video verk sem ég kláraði síðast liðinn vetur. Ég leita að sýningarrýmum og hátíðum til að koma þessum verkum áframfæri, það tekur mikinn tíma af mér. Einnig eru umsóknarfrestir á Íslandi að skella á og við Rebel Rebel hópurinn (s.s. ég og Snæbjörn) erum með spil uppi í erminni, say no more.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s