RDF – THIS IS NOT ABOUT EVERYTHING – DANIEL LINEHAN

Sjaldan hef ég lent í því að gleyma mér fullkomlega á sviðlistaviðburði. Það er kannski helst þegar ég sofna að ég nái að gleyma mér. En stundum nær sogast maður einhvern veginn algjörlega inn í verkið og verður hluti af því. Og það gerðist á laugardaginn síðasta.

Um síðustu helgi átti sér stað nóvemberútgáfa Reykjavík Dance Festival og einn af erlendum gestum hátíðarinnar í þetta skiptið var Daniel Linehan sem sýndi verkið This is not about everything. Verkið er í eðli sínu mjög einfalt; Daniel snýr sér í hringi á miðju sviðinu…í klukkutíma. Og á meðan endurómar hann í sífellu setningar í takt við hljóðmyndina, skrifar undir stuðningsyfirlýsingu við dvöl flóttamanna í Svíðþjóð, klæðir sig úr fötum og fleira í þeim dúr. Fyrir vikið varð þessi einfalda gjörð flókin og í raun óskiljanleg því ég held að flestum myndi svima all hressilega eftir meira en nokkrar mínútur.
Snúningurinn sem slíkur var nokkuð áhrifamikill en einn og sér hefði hann bara virkað eins og eitthvað trix sem listamaðurinn væri búinn að mastera, mjög vel reyndar. Það sem heillaði mig einna mest við verkið var hvernig Daniel tókst á við hugmyndafræðilega hlið verksins. Nánast frá klósettskál Duchamp höfum við verið föst í viðjum konseptsins, sem er endilega ekkert svo slæmt, nema þegar konseptið tekur algjörlega yfir verkið og verður að eins konar póstmódernískum kínamúr sem við getum beitt gegn allri gagnrýni. Ég sjálfur hef ófáu sinnum lent í því að standa á virkisveggnum og rífa í mig gagnrýni á forsendum hugmyndafræði og konsepts vitandi að verkið var bara lélegt.
Í This is not about everything nær Daniel hins vegar að víkka út hugmyndafræðilegan heim verksins með upptalningu á öllu því sem verkið fjallar ekki um. Ósjálfrátt leitar áhorfandinn að tengingum milli þess sem hann nefnir, sem er í raun og veru allt í heiminum, en um leið afvopnar Daniel áhorfandann með sífelldri endurtekningu og með því að afbyggja allt jafnóðum, t.d. í tilfelli stuðnigsyfirlýsingarinnar sem hann skrifar undir en segir síðan að hún muni líklega ekki leiða til meiri friðar og umburðarlyndis í heiminum.
Fyrir vikið snýst verkið mun meira um að komast handan hugmyndafræðinnar og meira í átt að manneskjunni. Verkið kallast að þessu leiti á við shamanískar hugmyndir um transinn og tilraunir gjörningalistamanna í kringum 1970 þar sem margir leituðu leiða til að reyna á líkamleg, og þar með mannleg, þolmörk sín. This is not about everything nær með þessum hætti að takast á við ástand mannsins í samtíma sínum, þar sem hann virðist fastur inn í konseptinu um sjálfan sig, algjörlega blindur á takmarkanir og galla þess kerfið sem hann hefur rammað sína tilveru inn í. Og um leið sogaðist maður inn í transinn og rann saman við verkið.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s