Black og No Title eftir Mette Edvardsen á Reykjavík Dance Festival

Verkin Black og No Title eftir Mette Edvardsen voru sýnd á þriðja kvöldi Reykjavík Dance Festival þann 21.nóvember 2015. Mette hefur unnið sem dansari og flytjandi með ýmsum danshópum síðan 1996 en síðan 2002 hefur hún unnið að þróun sinna eigin verka.

Mette virðist vera mjög fræðileg í nálgun sinni en bæði Black og No Title voru krefjandi verk sem reyndu verulega á athygli mína og sessunauta minna. Svo mikið að nokkrir í kringum mig dottuðu og einstaka vel menntaðir einstaklingar fóru í hlénu á milli verka. Ég er hins vegar svo þolinmóður áhorfandi að ég bíð, á erfiðum sýningum, eftir því að ljósið við enda ganganna muni kollvarpa sýn minni á allt verkið. Ég bíð til að sjá hvort höfundi eða leikstjóra takist að nýta sér mikilvægustu kringumstæðuna í verkinu til að setja fram nýjan skilning eða bretta upp á gildismatið mitt. En þetta er auðvitað frekar hefðbundin lestur af minni hálfu og á kannski lítið skilt við óhefðbundnari sýningar eins og verk Mette sem velta upp spurningum um formgerð og aðferðafræði. Í verkunum var Mette að ögra listformi sviðslista á sviði með tómu rými og takast á við tungumálið og skynjun manneskjunnar á veruleikanum umhverfis okkur. Verkin voru fyrirbærafræðileg, einbeitt og glettin.
Í fyrra verkinu Black notaðist hún við endurtekningar á orðum (endurtók sömu orðin yfirleitt 8x) til að mála upp það sem ekki var og notaði líkamann til að auðvelda ímyndunarafli mínu að sjá það sem hún sá – eða fann. Ég fílaði meðferðina á textanum sem dró fram margbreytileika og þversagnakennd orðanna, sérstaklega þegar næsta orð var eitthvað allt annað en rökheilinn minn hafði áætlað. Þannig náði textinn að mynda rof í skynjun minni á framvindu verksins. Það var sömuleiðis ánægjulegt að fylgjast með Mette skapa heiminn á sviðinu en til lengdar fór mér að leiðast. Og ég held að endurtekningarnar, partur af grunn hugmyndafræði verksins, eins skemmtilegar og þær voru, hafi verið verkinu til trafala. Sennilega vegna þess að verkið varð heldur einsleitt til lengdar og uppbrotin ekki nægilega grípandi.
Á seinna verkinu var ég stöðugt að detta út, það er kannski sniðugt að sjá verkin ekki samhliða heldur á sitthvorum tímapunktinum á lífsleiðinni. Mette skrifaði með orðum sínum og rödd út í tómið og minnti mig á hvernig tungumálið inniber líf og dauða. Hún lýsti því sífellt yfir að allt sem hún nefndi væri horfið/farið. Allt sem var áður, allt sem var þá og er núna var farið í einhverjum skilningi – en ekki þar með sagt að það kæmi ekki aftur. Sumt hverfur og kemur aftur eða hverfur aldrei algerlega. Það er ennþá til í hugmyndaheimi okkar og í tungumálinu þar til það enduruppgvötast. Með textanum tvinnaði hún saman forsögulegu samhengi manneskjunnar og hinu persónulega minni en þannig fannst mér verkið kafa í gegnum tungumálið inn í skynjun okkar á hugmyndum og hlutum í tíma og rúmi. Á einum tímapunkti þegar hún setti upp pappírsaugu á augnlokin fannst mér hún líka verða að vélrænni einmanna veru, framtíðarveru sem saknaði gamalla lífvænlegra tíma. En sviðshreyfingar Mette voru hægar og sefandi, enda var hún með lokuð augun mest allan tímann, svo tungumálið olli einskonar drómasýki meðal áhorfenda, svolítið eins og gerist á löngum þungum fyrirlestrum þar sem vantar allar myndir á glærurnar.
Ég hefði viljað taka mömmu mína með á þessa sýningu og heyra hennar álit sem er algerelg laust við að vera innvinklað inn í fræðasamfélag sviðslista. Ég get ekki ímyndað hver upplifun hennar hefði verið. Sjálf upplifði ég verkin sem dæmisögur og afurðir fræðilegrar rannsóknarvinnu sem tekst fyrst og fremst á við samband manneskjunnar við tungumálið og hvernig við notum orð til að móta veruleikann og hvernig viðhorf okkar til þess veruleika getur mótað líf okkar. Eitthvað sem er vissulega prófunarinnar vert þó niðurstöðurnar svæfi helming áhorfenda á laugardagskvöldi.

Þetta þetta þetta þetta þetta þetta þetta þetta. Er er er er er er er er. Umfjöllun umfjöllun umfjöllun umfjöllun umfjöllun umfjöllun umfjöllun umfjöllun.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s