Maðurinn í kassanum

Listnemi á fyrstu önn í myndlistarnámi við LHÍ dvelur nakinn í kassa í viku. Verkið er nokkurs konar tilraun í anda ‘endurance’ gjörninga sem vou áberandi í kringum 1970 en þó með tvisti: sýnt er beint frá veru hans í kassanum á youtube. Fyrstu viðbrögð okkar eru sjálfsögð og eðlileg kannski, annars vegar hlæjum vandræðanlega og dælum út lélegum og þunnum twitter oneline-erum um typpi og kúk og sjálfsfróun, og hins vegar ýtum þessu fræðilega og listsögulega til hliðar, tölum um frumleika og Abramovich og Artaud, rífumst kjánalega um list og ekki-list. Vissulega er verkið ekki það frumlegasta en, eins og bent hefur verið á, er það kannski full harkalegt að fara að saka nemanda sem er að prófa sig áfram á sinni fyrstu önn í listnámi um að vera ekki nógu frumlegur. Að vera nakinn i kassa í heila viku er eitt og sér áhugaverð tilraun en það sem kjarnaði þetta tiltekna verk var fyrst og fremst miðlun þess, beina útsending. Í henni fólst frumleikinnn. Með því að opna á þessa miðlun hættir verkið að snúast um þolmörk listamannsins og snýst fullkomlega og að öllu leyti um áhorfandann, um okkur.

Nánast frá byrjun voru helstu afþreyingarmiðlar landsins sjúklega spenntir fyrir gjörningi Almars. Við þurfum ekkert að fara í kringum ástæðuna fyrir því, hún er einföld; typpi, pungur, piss, kúkur og sjálfsfróun í beinni útsendingu á netinu. Þegar leið á gjörninginn fór minna fyrir þessum áhuga og fókusinn kannski yfir á eitthvað annað plan, þ.e. fólk hætti hægt og rólega að sjokkerast og fór bara að horfa…og horfa og horfa og horfa.

Hvað fólst í þessu stanslausa áhorfi? Það er ekki eins og Almar hafi verið að gera eitthvað mjög stórfenglegt og spennandi inn í kassanum til að halda athygli okkar. Hann var einfaldlega að láta tímann líða. Af hverjum gátum við þá ekki slitið okkur frá honum?

Það má finna ákveðin svör við þessu í kenningu félagsfræðingsins Erwing Goffmann um sviðsetningu og performans í hversdagslegu lífi okkar. Goffmann gengur út frá því að í hversdagslegu athöfnum okkur séum við í raun alltaf að leika eins og leikari á sviði, með texta, í búning o.s.frv. Nánast ómögulegt er að komast handan leiksins nema á þeim stöðum sem Goffmann kallar baksviðið. Þar fellum við grímuna og leikurinn hættir. Að mínu mati er þetta ansi hæpin kenning, þ.e. að hægt sé að komast undan leiknum, af þeirri einföldu ástæðu að við sjálf eru samtímis í hlutverki leikara og áhorfanda; við stemmum af allar okkar gjörðir bæði út frá samfélagsmótun okkar og enn frekar út frá því að það gæti alltaf einhvern verið að fylgjast með. En hugmyndin um bakherbergið er sterk og kallast í raun á við hugmyndir Freud um frumbernskuna og speglastigið þar sem barnið ber kennsl á sjálft sig og fer um leið að skilyrða hegðun sína samkvæmt gildum samfélagsins. Þráin eftir frumbernskunni og að komast handan siðmenningarinnar, handan leiksins og grímunnar, er grundvallar stef þessarar hugmyndar Freud, þó svo að það sé nánast ómögulegt.

Samfélagsmiðlar og raunveruleikasjónvarp ganga að miklu leyti út á ákveðinn leik með þessar hugmyndir, þ.e. að við getum einhvern veginn séð glitta í hina raunverulegu manneskju handan grímunnar, að við getum komist í seilingarfjarlægð við raunverun. En loforð um raunveruleika í þessu tilfelli er nánast hin fullkoma blekking: raunveruleikasjónvarp er klippt saman og skirfað í þeim tilgangi að ýkja raunveruleikan, gera hann einhvern veginn enn raunverulegri. Samfélagsmiðlar grundvallast á skýru eftirliti, það er alltaf einhvern að fylgjast með okkur, eða að elta okkur í tilfelli Twitter, og þar með skilyrðist hegðun okkar allhressilega. En þráin eftir raunverunni er svo sterk að við getum ekki annað en horft, njósnað og elt.

Maður er nakinn í kassa. Búið er að stylla upp okkar dýpstu Freundísku fantasíum: berskjölduð manneskjan sem hið fullkomna viðfang, og okkur er vinsamlegast boðið að glápa að vild, glápið að vild, glápið. Og við glápum og getum ekki annað, samt ekki beint, heldur í gegnum stafærna útsendingu. Goddur sagði að einmitt fólk vildi ekki standa fyrir framan kassann og fylgjast með Almari, miklu frekar standa aðeins til hliðar og horfa á hann í gegnum beina útsendingu á youtube. Þetta er mjög skiljanegt. Enginn vill þurfa að horfast í augu við viðfang sitt, það myndi hreinlega rústa fantasíunni og við gætum þurft að hrökklast í burtu. Það myndi sömuleiðis beina sjónun að hlutverk okkar í þessum gjörningi. Almar lokaði á öll samskipti við fólk á meðan hann dvaldi í kassanum sem gerir það að verkum að hlutverk og staða okkar er töluvert ólík frá því sem gengur og gerist á samfélagsmiðlum. Eftirlitið er í þessu tilfelli ekki í báðar áttir, Almar hefur engann aðgang að okkur. Við erum eftirlitið, við erum fangavörðurinn í alsæisfangelsi Foucault, við erum Stóri bróðir.

Almar bara er. Hann er vissulega að leika, undan því verður ekki komist, en honum hefur tekist að rugla aðeins í okkur. Með gjörningurnum hefur honum tekist snúa lítillega upp á samfélagsgerðina og varpað ljósi á ábyrgð okkar á þeim raunveruleika sem höfum sniðið í kringum líf okkar. Þarna var hann bara í kassa í viku á typpinu og kúkaði í poka en var einhvern veginn eðlilegri og raunverulegri en við í okkar plastaða Disney raunveruleika. Spurningin er ekki hvort að hans veruleiki í kassanum sé æskilegri eða mannlegri en veruleiki okkar áhorfanda. Vera hans í kassanum varpaði einfaldlega ljósi á ábyrgð okkar á þeirri skilyrtu og jafnvel raunveruleikafirrtu samfélagsgerð sem við sjálf sköpuðum og köllum ‘eðlilega’. En þegar málunum er styllt svona upp, og við stöndum alein í fangelsisturninum og horfumst beint augu við ábyrgð okkar, má velta því fyrir sér hvort að við munum einhvern tímann geta tekist á við þessa ábyrgð, og þar með á við skakka sviðsetningu okkar sjálfra um leið. Eða hvort að við höldum áfram að leita í vandræðanlegri örvæntingu í faðm kaldhæðinnar, enda vel kassavön í þeim veruleika.

 

– Karl Ágúst Þorbergsson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s