Eitruð umræða

Nú þegar tilkynnt hefur verið um það listafólk sem fékk listamannalaun frá ríkinu þá upphefst hin árlega umræða um réttlæti þess að úthluta peningum til listamanna. Andstæð sjónarmið takast á í botnlausri umræðu og fyrr en var er hún farin að snúast um af hverju einhverjir aumingjar út í bæ fái fullt af ókeypis peningum fyrir að krota á blað eða pissa hver á annan. Auðvitað eru þessir verkefnastyrkir ekkert öðruvísi en aðrar aðgerðir stjórnvalda til þess að viðhalda mannlífi á þessari afskekktu eyju, t.d. niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum, styrkir til íþróttafélaga, þjóðkirkjan í heild sinni og björgunaraðgerðir í bankakerfinu. En, af einhverjum ástæðum er þó hatrömm andstaða við þessa ákveðnu styrki.

Að einhverju leyti finnst mér það alltaf svo illskiljanlegt vegna þess hversu jákvæða ímynd listin hefur skapað Íslandi en þegar litið er hvernig þetta birtist almenningi þá skil ég að einhverju leyti þessa neikvæðu umræðu. Væri ekki faglegt og hjálplegt að undirbúa þessa stærstu fjárveitingu til sjálfstætt starfandi listamanna með umræðum í samfélaginu áður og við afhendingu? Hefur almenningur einhverja hugmynd um hvað er á annað borð að koma út úr þessu á ári hverju? Ég er ekki að segja að einstaklingar þurfi að stíga á stokk og réttlæta sinn skerf heldur er ég frekar að spyrja hvort hér séu ónýtt tækifæri til þess að bæta kerfið og umræðuna. Það hlýtur að vera leið til þess að lægja öldurnar og nota umræðuna sem skapast til þess að auka veg sjálfstæðs listafólks og þrýsta á stjórnvöld að auka fjárframlög í þennan flokk í stað þess að vera alltaf í vörn og sýna hvert öðru myndir af frægu listafólki sem hefur einhverntímann fengið styrk (já, það er einmitt þannig sem Facebook virkar).

En við Íslendingar erum ekki ein um þetta bitbein. Nú fyrir skömmu fékk enska listakonan Ellie Harrison £15.000 (tæplega 3 mljó. króna) styrk frá Creative Scotland til þess að framkvæma næsta verkefni sitt. Úthlutunin mætti gríðarlegri gagnrýni frá mörgum Skotum, viðburðurinn (https://www.facebook.com/events/938052702945194/permalink/939659772784487/) og síða listakonunnar á Facebook fylltist af úthrópunum og ljótum athugasemdum, sem og skrifstofa Creative Scotland, sem fékk góðan skammt af kvörtunum. Verkefnið er, eftir lýsingum listakonunnar, árslangt samfélagsverkefni þar sem hún má ekki fara út fyrir borgarmörkin og notar aðgerðasinnaðar aðferðir við að ræða og rannsaka misskiptingu í Glasgow og hvernig hægt sé að nota list til valdeflingar. Þrátt fyrir ungan aldur á hún að baki nokkuð langan feril í samfélagsverkefnum og því ágætis líkur á því að verkefnið verði árangursríkt. Lýðskrumspappírar á borð við Daily Mail voru þó fljótir að nýta sér upplýsingaleysið í kringum styrkveitinguna og drógu upp ljóta mynd.

Þegar ég frétti af þessu fór ég á síðu verkefnisins og ég verð að viðurkenna að það tók mig, lærðan listamann, töluverðan tíma að komast að því um hvað málið snerist. Töluverður tími í þessu tilviki er ca. 10x meiri tími en fólk virðist almennt hafa gefið sér í að skoða málið. Það sem birtist manni er mynd af fituglansandi frönskum kartöflum og titillinn “The Glasgow Effect”, óformlegt safnheiti ástæðna sem skila sér í þeirri staðreynd að heilsufar og lífslíkur Skota eru töluvert verri en annarstaðar í Bretlandi. Þetta í bland við það, sem virtist við fyrstu sýn vera þriggja milljón króna styrkur til Englendings fyrir það eina að dvelja í borginni í ár, sprengdi samfélagsmiðlana.

Í íslensku samhengi hefði þetta kannski litið út eins og einhver bandarískur listamaður kæmi hérna í ullarpeysu, undir blaktandi lundafána og ætlaði að segja okkur hversu miklir hræsnarar við séum í umhverfismálum… eða kannski ekki, fólk var allavega brjálað og það þrátt fyrir að skoska ríkisstjórnin eyði yfir 30 milljörðum árlega að halda úti kjarnavopnum.

– Sigurður Arent Jónsson

Advertisements

One thought on “Eitruð umræða

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s