Stripp

Verkið Stripp er sjálfsævisöguperformans leikkonunnar Olgu Sonju Thorarensen og er unnið í samstarfi við Pétur Ármannsson og Brogan Davison úr leikhópnum Dance for me. Ásamt Olgu leikur Brogan í verkinu. Leikhópurinn leitast við að segja sögu Olgu án þess að taka nokkra afstöðu gagnvart umfjöllunarefninu. Það er ekki hlutverk verksins að kenna okkur lexíu eða segja okkur hvað sé rétt eða rangt.

Saga Olgu hefst á því að hún fer í starfsnám í leikhús í Berlín. Þar tekur hún að sér launalaust hlutverk barnungs strippara sem heitir Roxy. Roxy er 14 ára stelpa með fíknivanda sem er stöðugt nauðgað í verkinu. Hlutverk Roxy er án texta en í sýningunni sem er sjö tímar mátti hún gefa frá sér hljóð, gat til að mynda hlegið og grátið.

Olga bjó til forsögu Roxy til að lifa sig inn í hlutverkið. Forsagan er hryllingssaga ungrar stúlku sem endar á glapstigum í lífinu og neyðist til að sjá fyrir sér með því að dansa fáklædd fyrir þyrsta áhofendur. Saga Roxy varð hluti af performansi Olgu Sonju. Hún er Olga, Roxy og að lokum stripparinn Donna.

Eftir starfsnámið tók Olga ákvörðun um að reyna fyrir sér í strippi, til að greiða niður yfirdrátt sinn hjá Landsbankanum. Hún valdi strippstaði út frá umsögnum á TripAdvisor og fékk starf á einum þeirra sem er háklassa strippklúbbur í Berlín.

Strippstaðurinn átti margt sameiginlegt með leikhúsi. Hún valdi sér sviðsnafn, klæddist búning og performeraði fyrir áhorfendur sem karakterinn Donna. Í lok dags þegar staðnum var lokað var kveikt á ljósum og þá tók raunveruleikinn við. Sýningin var búin.

Olga hélt dagbók þann tíma sem hún vann fyrir sér sem strippari og er verkið meðal annars unnið upp úr þeim dagbókarfærslum.

Verkið tekst á við viðkvæm málefni, svo sem líkamann sem einkaeign, femínisma, misskiptingu auðs, konuna sem söluvöru og frelsi einstaklingsins. Málefni sem valda togstreitu og deilum.

Olga segir sína sögu og notar myndbandsupptökur af sjálfri sér til viðbótar. Upptökurnar sýna hana, venjulega stelpu að tala við myndavélina á hversdagslegan hátt. Við sjáum hana í einu þeirra segja frá því að hún hafi verið að uppgötva að hún væri ófrísk, annað sýnir hana eiga í samtali við mann á strippstaðnum sem er að falast eftir vændi og enn annað sýnir hana dansa heima hjá sér með óléttubumbu. Myndabandsupptökurnar af henni verða til þess að við sjáum hana sem meira en strippara og performer. Við fáum að sjá hana sem manneskjuna sem hún er. Eitthvað sem áhorfendurnir á strippstaðnum fengu ekki að kynnast. Það býr til aukna nálægð við listamanninn og skapar einnig andstæður, hún að dansa ólétt og svo hún á sviðinu í stripparagalla að dansa.

Í byrjun verksins er Olga á sviðinu klædd í gallabuxur og bol og hreyfir sig í anda strippdansara í algjörri þögn. Þögnin er þrúgandi, líkaminn verður eini fókuspunkturinn. Hreyfingarnar eru takfastar og endurteknar, nokkrar hreyfingar aftur og aftur í sömu röð.

Það fékk mig til að hugsa um endurtekningu þeirra sem vinna á slíkum stöðum og hreyfa sig svona kvöld eftir kvöld fyrir áhorfendur. Hreyfingarnar eru vel æfðar og útpældar, með það í huga að hreyfa líkamann þannig að hann kveiki í áhorfandanum. Að hægt sé að nota líkamann til að græða á áhorfandanum á strippstaðnum. Konan er söluvara.

Við sem áhorfendur erum í byrjun með eitthvað í höndunum sem áhorfendurnir á strippstaðnum höfðu ekki. Við vitum forsöguna og erum mætt til að horfa á sviðsverk, ekki konu að strippa til að svala okkar fýsnum. Verkið fær okkur þó til að horfa og tekur valdið í sínar hendur með að leiðbeina okkur með því að segja okkur hvert við eigum að horfa. Okkur er sagt að horfa á ákveðna líkamsparta, brjóstin, fæturna, rassinn og erum þá sett í stöðu áhorfandans á strippstaðnum sama hvort okkur líkar betur eða verr. Við erum í rauninni að gera það sama og mennirnir sem mæta á strippstaðinn þó svo að tilgangurinn sé annar. Okkar tilgangur er talinn göfugri.

Mögulega er sjónarhorni okkar beint svona skýrt til að við upplifum okkur sem part af þessum sama iðnaði. Að við getum ekki fordæmt iðnað sem við erum hluti af, að við séum hluti af vandamálinu. Eða til að við áttum okkur betur á hlutgervingunni sem á sér stað í slíkum iðnaði. Við erum ekki að horfa á manneskju heldur líkamsparta.

Aðeins seinna skiptir Olga yfir í strippgallann og þá má enn frekar sjá þessar andstæður. Hún skiptir um karakter, fer frá því að vera Olga og í að vera strippari. Upplifun okkar af henni verður marglaga. Fyrst er hún Olga að hreyfa sig eins og strippari og svo verður hún strippari. Þegar hún stendur á sviðinu í stripparagallanum og ræðir einlæglega um sjálfa sig og sína sögu þá takast þessar andstæður á.

Brogan Davison gegnir ýmsum hlutverkum í sýningunni. Hún leiðbeinir áhorfendum í gegnum verkið og verður einhverskonar rödd almúgans. Brogan spyr Olgu óþægilegra spurninga, til að mynda hvernig það sé að vera bæði móðir og strippari og hvort hún telji sig ekki vera að hafa áhrif á aðrar konur í heiminum með gjörðum sínum. Þessum spurningum kýs Olga að svara ekki. Olga verður þannig bæði í senn táknmynd stripparans sem kýs að klippa á ákveðin hugsanatengsl til að geta sinnt starfinu og táknmynd konunnar sem er frjáls og fær að gera það sem hún vill óháð öðrum. Olgu leið eins og hún og hinir dansararnir á klúbbnum hefðu valdið í höndum sér frekar en að þær væru fórnalömb þeirra sem borguðu fyrir að sjá þær dansa. Þær græddu pening á þurfandi einstaklingum sem fengu ekkert varanlegt í hendurnar en þær stóðu uppi sem sigurvegarar með fulla vasa af peningum.

Olga tilheyrir hópi þeirra sem vanalega neyðist ekki til að sjá fyrir sér með strippi. Hún er listakona sem nýtur þeirra forréttinda að geta tekið við starfinu tímabundið og unnið sviðsverk úr reynslu sinni. Það er ekki raunveruleiki strippara almennt. Mér fannst ekki koma nógu skýrt fram að afstöðuleysi verksins byggist á miklu leiti á því hversu mikil forréttindakona Olga er. Það var ekki vegna neyðar sem hún leiddist út í stripp. Hún hefði getað fengið sér aðra vinnu og náð á endanum að borga niður skuldina en ákvað að fara þessa leið. En í leiðinni spyr ég mig hvort það þurfi neyð til að “mega” vinna sem strippari. Hvort það sé ekki bara partur af einstaklingsfrelsi okkar fá að strippa fyrir fullt af peningum ef við kjósum það. Einn gestur á strippstaðnum borgaði Olgu til að mynda þúsund evrur fyrir eitt kvöld í heitum potti á meðan sumar vændiskonur fá þrjú prósent af þeirri upphæð fyrir kynmök. Það er verið að kaupa aðgang að konum í báðum tilfellum en sú ríkari spjallar í heitum potti á meðan sú fátækari gefur algjöran aðgang á líkama sínum.

Olga hafði ákveðna fjarlægð við starfið. Hún var föst á því að starf hennar væri dans en ekki vændi en svo kom að því að mörkin urðu óskýr og fjarlægðin máðist út. Hún hætti í vinnunni vegna þess að hún var farin að lifa sig of mikið í hlutverkið. Hún var orðin strippari. Og gat þá hætt án vandkvæða og haldið áfram að lifa sínu lífi og sýnt sviðsverk um stripparann Donnu.

Mér fannst verkið áhugavert og mig langaði til að vita meira um söguna og tilfinningarnar sem henni fylgdu. Sýningin hreyfði við mér og fékk mig til velta fyrir mér hversu slæmt það væri í rauninni að vera dansari á strippstað. Er þetta hvort sem er ekki allt bara performans? Þetta er þó flóknara en svo og í leiðinni finnst mér þessi heimur þar sem allt fer kaupum og sölum vera ógnvekjandi.

Frelsi konunnar í þessu samhengi er afsprengi þeirra áherslna sem samfélagið hefur sett okkur í sambandi við kynjahlutverk. Með því að aðhyllast fullkomna frjálshyggju er verið að samþykkja heim þar sem karlmenn fá að kaupa konur, að fólk fái að kaupa annað fólk. Það heldur ákveðnu gildismati gangandi. Viljum við búa í heimi þar sem kaup á konum í einhverri mynd er möguleiki?

Olga segir í viðtali um verkið að í henni togist á ólík hugmyndafræði vegna þess að umfjöllunarefnið sé flókið og að það sé erfitt að taka afstöðu. Ég er sama sinnis, án þess þó að hafa reynsluna. Sýningunni var ekki ætlað að láta okkur taka ákveðna siðferðislega afstöðu heldur segja okkur sögu og fá okkur til að spyrja okkur spurninga. Og það tókst, í mínu tilfelli allavega.

-Hildur Selma Sigbertsdóttir

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s